141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þó að það snúist ekki um spurninguna vil ég byrja á að segja að ég tel að það hafi verið sterk pólitísk forusta í þessu máli á kjörtímabilinu. Hér voru samþykkt lög um það félag sem hefur unnið að framkvæmdinni. Þetta er stór og mikil framkvæmd og um þær er alltaf deilt. Það má segja að á Íslandi sé um fátt meira deilt en húsbyggingar og ég lít á það sem hlutverk okkar allra, þingmanna, að halda áfram umræðu um nýjan landspítala og mikilvægi hans.

Ég tel jafnframt að þetta mál sé í sjálfu sér ekki stóra málið varðandi þessa byggingu. Hér er verið að breyta formi félagsins. Það er ekki verið að breyta neinu í ákvarðanatöku um byggingu sjúkrahússins. Það er bara verið að skapa félaginu þá umgjörð sem er eðlileg fyrir opinbera framkvæmd af þessu tagi.

Varðandi forgangsröðun verkefna í þinginu ligg ég ekkert á því að mér þykir gríðarlega mikilvægt að við ljúkum þessu máli. Þá tala ég sem formaður velferðarnefndar og fulltrúi Samfylkingarinnar sem er velferðarflokkur. Ég stend samt ekki í samningaviðræðum í þinginu um það hvaða mál eru afgreidd og hvenær. Það er annarra að taka ákvörðun um það.