141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, en hún sagði dálítið merkilegt. Hún sagði að fjárlaganefnd hvers árs þyrfti að taka fyrir einstaka liði og ákveða fjárveitingar. Það er sem sagt ekki verið að ákveða að byggja einn spítala, nei, það er verið að ákveða að byggja kannski spítala einhvern tíma.

Grikkir lentu til dæmis í miklum vandræðum vegna þess að þeir fegruðu á vissan hátt ríkisbókhaldið, sýndu ekki skuldbindingar sem lágu fyrir. Mér finnst það ljótt að sýna ekki börnum okkar skattana sem þau koma til með að borga. Það á að segja þegar við byggjum eitt stykki sjúkrahús: Við ætlum að byggja eitt stykki sjúkrahús og fyrsti áfangi kostar 44 milljarða og í heild sinni kostar þetta 80 milljarða eða rúmlega það, samkvæmt tölum frá fjárlagaskrifstofu eru það 85 milljarðar. Þetta eigum við að segja, ekki að plata okkur með því að koma bara með 534 millj. kr. fyrsta árið og síðan stigvaxandi kostnað sem verður höfuðverkur hæstv. fjármálaráðherra í framtíðinni. Við eigum að segja hvað hlutirnir kosta.

Harpan er einmitt dæmi um það þegar ekki er sýnt hvað hlutirnir kosta. Á hverju einasta ári mun ríkissjóður þurfa að borga heilmikla peninga í Hörpuna og það hefur ekki verið sýnt á fjárlögum. Alla þá skuldbindingu á að sjálfsögðu að sýna í fjárlögum. Sá feluleikur sem menn ætluðu að fara í með einkaframkvæmd var ekkert annað en feluleikur, frú forseti. Það er búið að ákveða að borga leigu fyrir eitthvert húsnæði og sú leiga er að sjálfsögðu skuldbinding. Það er ekki hægt að hætta við, þetta er skuldbinding og hún verður að greiðast, börnin okkar munu þurfa að greiða hana, en við sýnum það ekki. Við eigum að sýna börnum okkar og skattgreiðendum framtíðarinnar hvað við erum að leggja á herðar þeim svo við lendum ekki í svipaðri stöðu og Grikkir.