141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú langar mig til þess að hv. þingmaður svari því hvenær við ætlum að taka ákvörðun um að byggja spítala. Er það núna? Er sú ákvörðun tekin með þessu frumvarpi? Og ef ekki í þessu frumvarpi, hvað liggur þá á?

Ég veit ekki betur af umræðum en verið sé að ákveða að ríkið fari að byggja eitt stykki spítala. Á bls. 13 er sett fram tafla frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um það hvernig þetta skuli dreifast á ár. Þetta liggur allt fyrir. Svo segir hv. þingmaður að það sé ekkert verið að taka ákvörðun um þetta.

Það er verið að ákveða að byggja spítala með hefðbundnum hætti á kostnað ríkisins. Ég er í sjálfu sér mjög sáttur við það, en þá vil ég líka að það sé fært til bókar. Kostnaðurinn hefði átt að færast inn í fjárlög yfirstandandi árs því að fyrir lá að það ætti að gera þetta en menn voru að fela. Þeir vildu ekki sýna þessa miklu skuldbindingu í fjárlögum yfirstandandi árs, þá væri reikningurinn ekki eins fallegur og ella. Það vantar nefnilega alveg helling inn í hann. Það vantar Íbúðalánasjóð, það vantar Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og ég veit ekki hvað og hvað.

Það eru risagöt í fjárlögum yfirstandandi árs og þau koma í hausinn á skattgreiðendum fyrr eða seinna. Þau fara ekki neitt. Þessi kostnaður, ef menn ætla að byggja spítala, fer ekki neitt. Spítalinn dettur ekki af himnum ofan og guð almáttugur borgar hann. Það er ekki þannig. Það er ríkissjóður sem borgar hann, skattgreiðendur. Og það er alveg eins gott að sýna skattgreiðendum hvað þeir eigi að borga en ekki fela það með því að ákveða á hverju ári hvort við ætlum að halda áfram eða ekki.

Gætu menn virkilega hætt árið 2016 þegar til eiga að falla 10,6 milljarðar? Gætu menn þá bara sagt: Heyrðu, ég er hættur við. Hvað ætla menn að gera við það sem búið er að byggja og kostnaðinn sem búið er að henda í þetta? Ég sé ekki að það sé hægt, það er bara ekki hægt. Auðvitað munu menn halda áfram til enda og klára dæmið.