141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[23:09]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki alveg á spurningunni en það má vera að tölurnar verði ekki nákvæmlega eins og sagt er í frumvarpinu þegar á hólminn er komið og þetta verði hugsanlega eitthvað dýrara, það er nú oft þannig í opinberum framkvæmdum. En það er ekki það sem skiptir höfuðmáli í þessu. Það sem skiptir höfuðmáli er að byggingin kostar mjög lítið hlutfallslega miðað við reksturinn sem fer fram í húsinu; 40 milljarða kostar að reka sjúkrahúsið á ári, byggingarkostnaðurinn er um 44 milljarðar, þetta er næstum því sama talan.

Galdurinn í þessu er sá að hagræðing næst þannig að rekstrarkostnaður lækkar miðað við óbreytta þjónustu, þetta næst til baka. Það verður hins vegar þrýstingur á meiri þjónustu í framtíðinni, en það gerist líka í gömlu húsnæði. Það verður þrýstingur á að kaupa dýrari lyf o.s.frv., en það gerist líka í gömlu húsnæði þannig að það eru allt einhver mál sem við þurfum að eiga við í framtíðinni.

Aðalatriðið er að við notum peningana í að byggja nýja skel. Það kostar lítið hlutfallslega miðað við reksturinn, reksturinn verður ódýrari, og við spörum okkur að kasta peningum í viðhald sem blasir við að þarf að fara í ef við förum ekki í nýbyggingu. Það mun kosta alveg gríðarlegt viðhald á gamla húsnæðinu. Ég vil ekki nota peningana í það viðhald. Ég tel að það sé óþarfaviðhald af því að miklu hagkvæmara sé að byggja nýtt og færa starfsemina í nýtt húsnæði nema auðvitað Barnaspítalann sem er svo nýr að það þarf ekki endurbyggja hann.

Með því að byggja þetta hús, af því að það er stundum þannig að á landsbyggðinni halda menn að það sé verið að taka peningana þaðan og setja þá hér, það er ekki þannig. Hagræðingarkrafan mun minnka alls staðar í heilbrigðiskerfinu. Af því að það mun sparast í nýrri byggingu mun hagræðingarkrafan á landsbyggðinni líka minnka þannig að þetta er öllum í hag.