141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

hafnalög.

577. mál
[23:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vitnaði réttilega í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem vakin er athygli á því að í þessu frumvarpi er að finna ýmis heimildarákvæði. Heimildirnar yrðu að sjálfsögðu ekki nýttar nema með samþykki Alþingis, fjárveitingavaldsins. Síðan mundi ráðast af því sem hér yrði ákveðið hver útgjöldin yrðu. Hér er fyrst og fremst verið að skapa rammann um hvað ríkissjóði væri heimilt að gera. Það er verið að reyna að skapa sanngjarnan ramma þar sem gætt er jafnræðis milli hafnanna og þar sem um er að ræða mismunun er hún sett í skipulegt form.

Síðan er bent á að með áherslu á aukinn sveigjanleika í samstarfi hafna, þá kunni hafnirnar að ná samlegðaráhrifum sem færi kostnað niður jafnvel þótt um sé að ræða auknar framkvæmdir. Samstarfið þarf ekki að fara inn í einhvern einsleitan farveg eins og verið hefur heldur er hægt að fara ýmsar millileiðir núna. Mér finnst liggja í augum uppi að það hlýtur að ráðast af getu ríkissjóðs á hverjum tíma og hver hugur manna er í þessum sal hver útgjöldin verða.