141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016.

582. mál
[23:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2013–2016. Sömuleiðis fylgir henni skýrsla mín um framkvæmd þróunarsamvinnuáætlunar Íslands á síðastliðnum tveimur árum. Bæði þessi skjöl eru lögð fram í samræmi við lög um þróunarsamvinnu. Í þeim segir að annað hvert ár skuli utanríkisráðherra leggja fram þingsályktunartillögu um áætlun stjórnvalda um alþjóðlegar þróunarsamvinnu til fjögurra ára í senn.

Frú forseti. Áætlunin felur í sér skýra forgangsröðun þar sem eru settar fram forsendur og markmið og sömuleiðis hvernig skuli unnið að þeim. Þá gildir einu hvort um er að ræða tvíhliða þróunarsamvinnu, stuðning við fjölþjóðlegar stofnanir og verkefni á þeirra vegum, verkefni á vegum félagasamtaka eða starf í þágu friðar undir merkjum Íslensku friðargæslunnar.

Í þróunarsamvinnuáætlun er sömuleiðis fjallað um framlög Íslands til opinberrar þróunarsamvinnu. Þar kemur skýrt fram að Íslendingar styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Í áætluninni er mörkuð sú stefna að á næstu árum mun Ísland auka framlög sín til þróunarsamvinnu og þannig skipa sér í hóp þeirra ríkja sem hvað mest leggja til málaflokksins. Við stefnum að því að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna árið 2019.

Ég vil sérstaklega geta þess, frú forseti, að þegar þingheimur fjallaði um þessa áætlun vorið 2011 og reyndar við allar umræður þingmanna um þróunarmál og allar götur síðan, hefur komið í ljós að hér í þessum sal ríkir mjög jákvæð og breið samstaða í kringum þennan málaflokk. Ég tel alveg ljóst að þingmenn eru mér sammála að Íslendingum ber sannarlega siðferðileg skylda til þess að láta af hendi rakna til fátækari þjóða heims. Spurningin er ekki lengur hvort heldur hvernig og hvar Ísland getur orðið að mestu gagni.

Nú eru liðin tvö ár af gildistíma þeirrar þróunarsamvinnuáætlunar sem við vinnum eftir núna. Ég verð að segja að það er mín skoðun að vel hafi gengið að hrinda henni í framkvæmd. Þess vegna eru ekki lagðar fram neinar sérstaklega umfangsmiklar breytingar. Meginatriðin í þeirri áætlun sem hér er lögð til eru þau sömu og áður. Áherslulönd Íslands eru eftir sem áður Malaví, Mósambík, Úganda, Palestína og Afganistan. Áfram verður lögð áhersla á stuðning við fjórar lykilstofnanir í fjölþjóðlegu samstarfi; UNICEF, UN Women, Alþjóðabankann og Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Málefnasviðin sem við leggjum áherslu á eru heilbrigði, menntun, fisk- og orkumál, auk starfs í þágu friðar. Jafnréttis- og umhverfismál eru áfram þverlæg málefni og neyðar- og mannúðaraðstoð skipa sem endranær lykilhlutverk.

Ég vil líka undirstrika að samstarf við félagasamtök verður vaxandi og mikilvægur þáttur í þróunarstarfi Íslands. Frjáls félagasamtök eru nátengd grasrótinni og eiga oft á tíðum auðveldara með að veita aðstoð þegar á reynir.

Starf íslenskra félagasamtaka er afar öflugt. Það er mikilvægt að stjórnvöld viðhaldi því góða samstarfi sem hefur tekist við þau á undanförnum árum. Ég vil líka nota þetta tækifæri, frú forseti, til þess að hrósa og þakka íslenskum félagasamtökum fyrir metnaðarfullt starf og fyrir gott samstarf í þágu þeirra sem minna mega sín.

Eitt nýtt viðfangsefni er í tillögunni sem er það nýmæli að lagt er til að gerð verði sérstök greining á tvíhliða samstarfslöndum Íslands, þeim sem ég áður taldi upp hér fyrr í minni ræðu. Síbreytilegar ástæður kalla á reglubundið mat á því hvar íslensk aðstoð kemur að bestum notum. Það er mikilvægt að sem best samsvörun sé á milli þarfa í samstarfslöndunum og styrkleika Íslands.

Frú forseti. Því fylgir vitaskuld mikil ábyrgð að ráðstafa opinberum framlögum til þróunarmála, ekki síst þegar framlög fara hækkandi til málaflokksins. Það er þess vegna afar ánægjulegt að geta greint þinginu frá því að nýverið fékk Ísland úrvalseinkunn frá þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem framkvæmdi sérstaka rýni á þróunarsamvinnu Íslands. Þar kemur mjög skýrt fram að þróunarsamvinna Íslands byggir á traustum grunni og að lagaleg og stofnanaleg umgjörð hennar og okkar að þróunarmálum er lofsverð. Nefndin sá reyndar einnig sérstaka ástæðu til þess að hrósa Íslandi fyrir þau áform og þær skuldbindingar að auka framlög til þróunarsamvinnu við aðstæður sem hafa verið tiltölulega erfiðar.

Þá góðu einkunn sem þróunarsamvinna okkar fær með þessu alþjóðlega mati má fyrst og fremst að mínu mati rekja til fagmennsku í stefnumótun og framkvæmd verkefna sem endurspeglast í þessari áætlun.

Frú forseti. Ég vil sérstaklega nefna stærsta verkefni á sviði þróunarsamvinnu sem við Íslendingar höfum nokkru sinni ráðist í, það snýr að jarðhitavæðingu í 13 ríkjum sem liggja í sigdalnum í Austur-Afríku. Þetta verkefni hófst á síðari hluta ársins 2011 þegar Ísland var útnefnt sem aðalsamstarfsþjóð og ráðgjafi Alþjóðabankans á sviði jarðhita. Okkur tókst fyrir frumkvæði forstjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands að fá Norræna þróunarsjóðinn til þess að greiða 800 milljónir til verksins. Þetta íslenska frumkvæði að þessu máli hefur reynst hnullungur sem kom af stað mjög stórri skriðu. Alþjóðabankinn hefur nú sagt frá því opinberlega að hann hyggist stofna sjóð sem í verði allt að 65 milljarðar kr. til þess að styðja við jarðhitanýtingu í þróunarríkjum.

Frú forseti. Þetta er sögulegur árangur sem ber að fagna eins og ég veit að þingheimur mun gera hér í fjörugum umræðum á eftir.

Ég vil líka geta þess að annað dæmi um góðan árangur af þróunarsamvinnu sem mér finnst vert að nefna hér er í Malaví. Ég var þeirrar ánægju og gæfu aðnjótandi að heimsækja Mangochi-hérað í Malaví á síðastliðnu ári og varð þar persónulega vitni að þeim árangri sem starf Íslands hefur skila. Í heimsókn minni sá ég árangurinn hreinlega blasa við. Í Monkey Bay í Malaví hefur verið byggt upp sjúkrahús fyrir íslenskt þróunarfé með stórri fæðingardeild ásamt því að heilsugæslustöðvar í nærliggjandi sveitum hafa verið endurbættar og þjónustan við íbúa aukin. Auk stuðnings við mæðravernd og ungbarnaeftirlit hefur 20 þúsund heimilum verið veittur aðgangur að hreinu vatni. Árangurinn er sá að það hefur dregið mjög sýnilega úr mæðra- og ungbarnadauða í héraðinu og kóleru útrýmt.

Síðast en ekki síst veit ég að það gleður a.m.k. hv. formann utanríkismálanefndar þegar ég nefni það að stuðningur okkar við Palestínu hefur aukist, en íslensk stjórnvöld hafa veitt stuðning bæði til friðaruppbyggingar á Gaza og líka á Vesturbakkanum. Ísland hefur líka veitt framlög til aðstoðar þeim Palestínumönnum sem eru á flótta, en talið er að 4 milljónir manna hafist við í flóttamannabúðum.

Í ráðuneytinu hefur sömuleiðis verið lögð rík áhersla á að þau verkefni sem Ísland styður stuðli að auknu jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Það er ánægjulegt að geta greint frá því að greining á verkefnum Íslands á árinu 2011 sýndi að tæplega 80% þeirra taka mið af kynjasjónarmiðum eða stuðla að auknu jafnrétti og það er snöggtum meira en í könnuninni þar áður.

Frú forseti. Ég gæti auðvitað haft um þetta langt mál og hef á því fullan hug að taka þátt í af kappi í umræðum hér á eftir, en ég vil samt í lokin þakka þinginu og sérstaklega hv. utanríkismálanefnd og reyndar þróunarsamvinnunefnd fyrir ákaflega gott samstarf. Það er ómetanlegt sérhverjum utanríkisráðherra að hafa þingið svo sterklega að baki sér í þessum málaflokki eins og ég hef orðið aðnjótandi.

Frú forseti. Ég legg svo til að þegar umræðu um málið sleppir verði því vísað til hv. utanríkismálanefndar ef forseti leyfir.