141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

Norðurlandasamningur um almannatryggingar.

600. mál
[23:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta Norðurlandasamning um almannatryggingar sem var gerður í Bergen 12. júní 2012.

Þessi samningur byggir að mestu leyti á samningi sem Norðurlöndin höfðu áður gert með sér 2003. Á honum hafa eigi að síður verið gerðar nauðsynlegar breytingar vegna þróunar sem hefur orðið á sviði almannatrygginga innan Evrópuréttarins sem og á löggjöf einstakra norrænna ríkja. Þær breytingar sem hafa verið gerðar fylgja þó meginreglum nýrrar Evrópureglugerðar frá árinu 2004 um hvernig samræma beri almannatryggingakerfi milli ríkjanna.

Þó að samningurinn byggist að mestu leyti á þeim sem fyrir var frá 2003 er samt að finna þar nokkur ný og breytt ákvæði. Helsta nýmælið er fólgið í því að svokölluð fimm ára regla tekur nú líka til sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Reglan er tæknilegs eðlis. Hún felur í sér undanþágu frá ákveðnum kröfum um að viðkomandi aðili hafi lokið tímabilum sem tengjast tryggingum og/eða atvinnu þannig að hann geti sótt um atvinnuleysisbætur í öðru aðildarríki.

Önnur breyting sem hefur verið gerð er að atvinnuleysisbætur þeirra sem fara til annars ríkis í atvinnuleit og halda rétti til atvinnuleysisbóta í tiltekinn tíma greiðast framvegis af ríkinu þar sem viðkomandi er tryggður en ekki ríkinu þar sem leitað er að atvinnu eins og hefur verið.

Þessi nýi samningur fjallar að auki um það hvernig eigi að samræma greiðslu fjölskyldubóta þegar foreldrar eiga rétt til greiðslna frá fleiri en einu norrænu ríki.

Samhliða framlagningu tillögunnar leggur velferðarráðherra, og hefur þegar gert, fram frumvarp til laga um lögfestingu samningsins.

Ég legg til, frú forseti, að þegar umræðu um þessa tillögu lýkur verði henni vísað til hv. utanríkismálanefndar.