141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að koma hingað upp og fara aðeins yfir málið. Verið hafa óformlegar þreifingar við þessa aðila í þó nokkurn tíma á meðan menn hafa verið að reyna að átta sig á á stöðu búanna. Við erum komin með þó nokkuð góða mynd af því núna og kortlagning hefur verið gerð á vegum svokallaðrar stýrinefndar um losun fjármagnshafta, sem ég fer fyrir ásamt bankamálaráðherra, seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Þar hefur verið lögð sú lína að menn ætla ekkert að flýta sér, tíminn hefur unnið ágætlega með okkur.

Við höfum líka lagt á það mjög mikla áherslu að teikna upp sviðsmyndina þannig að menn viti hvernig greiðsluútflæði við þolum hér til langrar framtíðar. Það skiptir líka máli að við stöndum saman um að ganga eins langt og við getum til að verja hagsmuni okkar Íslendinga, eins langt og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar leyfa. Um það tel ég að sé góð samstaða og er ekki vilji til neins annars af minni hálfu en að halda öllum vel upplýstum um málið. Enn eru engar formlegar viðræður hafnar við þessa aðila. Menn hafa verið í þreifingum og óformlegum viðræðum. Næstu skref eru þau að setja saman hóp sem hefur formleg samtöl við kröfuhafa. Ég mun eiga gott samstarf við forustumenn allra stjórnmálaflokka um hvernig sá hópur verður skipaður.