141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

samningar við kröfuhafa gömlu bankanna.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni og þess vegna hafa menn stigið mjög varlega til jarðar í málinu hingað til. Einhver pressa hefur verið á okkur að fara í þessi mál til að flýta fyrir losun fjármagnshafta en að mínu mati er algert lykilatriði að við gerum þetta þannig að sómi sé að. Þess vegna leggur okkur ekkert á. Hvort eitthvað gerist fyrir eða eftir kosningar get ég ekkert sagt um vegna þess að það er árangurinn sem við eigum að horfa á, ekki tímasetningarnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að sá tími sem liðið hefur hefur unnið með okkur Íslendingum í málinu hingað til. Við skulum gæta okkar á því að fara ekki að setja á okkur einhverja pressu hér innan lands í pólitíkinni þannig að tíminn fari hugsanlega að vinna gegn okkur.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ég held að við eigum að horfa fyrst og fremst á árangurinn en ekki endilega á tímasetningar. Ef ég á að segja alveg eins og er þá finnst mér ólíklegt að við klárum málið fyrir kosningar. Þess vegna finnst mér mikilvægt að halda öllum vel upplýstum þannig að (Forseti hringir.) við séum öll sammála um að verja íslenska hagsmuni fyrst og fremst og ganga eins langt og við getum í því efni fyrir og eftir kosningar.