141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

uppbygging á Bakka.

[10:54]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst leiðrétta hv. þingmann. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti og væntanlega heldur ekki það síðasta sem hann talar um að þessi ríkisstjórn hafi staðið gegn atvinnutækifærum. Það er náttúrlega óboðlegt að hv. þingmaður komi ítrekað hingað upp með svona tuggur sem eru innstæðulausar með öllu. Ég tala nú ekki um þegar hann hefur hér eftir einhverjar lýsingar á atferli einstakra þingmanna og hverjir hafi klappað saman lófunum og hverjir ekki. Ég bið hann að halda sig við staðreyndir í þeim málum eins og öðrum sem væri sjálfsagt krefjandi fyrir hv. þingmann að tileinka sér.

Varðandi það verkefni á Bakka sem hv. þingmaður nefnir þá liggur það fyrir, eins og hann tekur fram, að hér er um að ræða mengandi starfsemi eins og gildir að jafnaði um stóriðju af öllu tagi. Það gildir líka vegna þeirra lagasetninga sem við höfum undirgengist í samræmi við EES-samninginn að viðkomandi starfsemi þarf að undirgangast þá löggjöf með því að kaupa loftslagsheimildir á markaði í Evrópu og í raun og veru þarf að gera það í samræmi við þá löggjöf og það regluverk. Það breytir því engu um það í sjálfu sér að þessi starfsemi þurfi að undirgangast þann ramma.

Það er auðvitað hárrétt sem hv. þingmaður segir að þarna er um að ræða gríðarlega mikið framlag úr opinberum sjóðum, sjóðum almennings. Það þarf að staldra verulega við þegar um slíkt er að ræða, en hér hefur ítrekað verið bent á að um sé að ræða fleiri störf á hvert megavatt en í álframleiðslu. (Forseti hringir.) Það ætti út af fyrir sig að vera eftirsóknarvert en það eru margir þættir sem þarf að huga að.