141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

uppbygging á Bakka.

[10:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru engar innstæðulausar tuggur þegar ég held því fram að hæstv. ríkisstjórn hafi staðið í vegi fyrir framgangi hér í atvinnulífinu. Það má bara nefna Helguvík þar sem þeir sem komu að þeim málum hafa ítrekað staðfest að þannig var málum háttað. Við horfðum upp á það með Bakka þegar ríkisstjórnin neitaði að vinna áfram með Alcoa að stórkostlegum fjárfestingum á því svæði og sendi fyrirtækið burtu. Við sjáum það birtast í rammaáætluninni (Gripið fram í.) þar sem ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir eðlilegum framgangi mála með niðurstöðu sinni. (MÁ: … hvalveiðunum.) Fjárfestingarsviðið á Íslandsstofu hefur margítrekað sagt okkur að tækifærin á þessu kjörtímabili hafi verið meiri en nokkru sinni áður en þeir hafi ekki getað gefið nein svör. Það eru engar innihaldslausar tuggur þó að hv. þm. Merði Árnasyni líði illa með það ásamt hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) — Það má segja, já, það þarf að kaupa loftslagsheimildir. Öll starfsemi þarf að gera það í dag. Alcoa hefði líka þurft að gera það. (Forseti hringir.)

Og að þetta verkefni skapi fleiri störf á hvert megavatt — hvað með framleiðsluverðmætin og mengunina? Ég er ekki að gera lítið úr verkefninu, ég er mjög sáttur við það (Forseti hringir.) að við skulum loksins stíga einhver skref, ég er bara að sýna fram á fáránleg vinnubrögð (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar og hvað hún situr svo uppi með á endanum.