141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í lok júlí 2011 skilaði stjórnlagaráð tillögum sínum til Alþingis. Síðan var málið rætt í þeirri nefnd sem hv. þingmaður stýrir. Þann 21. febrúar 2012 skilaði ég inn umsögn upp á einar 40 síður með ótal breytingartillögum. Ég sé ekki að þær endurspeglist neins staðar enda held ég að enginn hafi lesið þær og hvað þá meir.

Frumvarp kemur fram frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, eftir alla þessa umræðu, og svo gerist það furðulega að sama fólk flytur breytingartillögu við sitt eigið frumvarp. Það var svo illa unnið, hlýtur að vera. Það var svo illa unnið eftir alla þessa umræðu í nefndinni að sama fólkið þurfti að flytja breytingartillögu, svo kemur aftur breytingartillaga núna frá þessu sama fólki. Hvað var það að gera í heilt ár í nefndinni ef það mótaði sér ekki skoðun á hlutunum og gat ekki flutt frumvarp og fengið allt fram í þeirri umræðu? Það voru kallaðir til sérfræðingar og ég veit ekki hvað. Hvernig stendur á því að sama fólkið flytur tvisvar breytingartillögu við eigin frumvarp? Ég held að eitthvað mjög mikið hafi verið að verkstjórninni í þessu máli.

Svo var ekki tekið tillit til þess, sem ég gat um mörgum sinnum, ég ætla að koma að því í seinna andsvari.