141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil helst benda á upplýsingakaflann. Mál hafa sannast að segja ekki verið mikið rædd vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa ekki viljað taka þátt í umræðunni nema mjög stöku sinnum. Upplýsingakaflinn er að mestu kominn inn í upplýsingalögin en hann er vissulega nýstárlegur og ákvæði er um að hann taki ekki allur gildi strax. Tom Ginsburg hefur kannað stjórnarskrár og hann vildi kalla þetta frumvarp fyrsta frumvarp 21. aldarinnar um stjórnarskrá. Í fyrsta lagi vegna ferlisins sem það hefur farið í gegnum sem honum finnst mjög merkilegur þó ekki sé kannski almenn ánægja með hann hjá öllum hér á landi, þó það sé mikill minni hluti fólks sem er ekki ánægður. En honum fannst merkilegt að tekið sé á internetinu, hann hefði hvergi séð það annars staðar. Honum fannst líka merkilegt að tekið væri á arfgerð, en við tókum það út vegna þess að við tókum upptalningu út úr 6. gr. um jafnræði. Þetta fannst honum merkilegt. 21. aldar stjórnarskrá.