141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:06]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki reiðubúin á þessari stundu til að óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að hafa rústað stjórnarskrármálinu eina ferðina enn. Ég verð nú að segja að síðustu orð hv. þm. Birgis Ármannssonar, um að á næstu dögum gefist tækifæri til að ræða áfram hvernig við ljúkum þessu máli, vekja mér enn frekar vonir en áður um að við getum lokið því með sóma hér á þinginu og í einhvers konar samstöðu.

Hv. þingmaður nefndi að í þeim breytingum sem fyrir liggja felist bæði gott og vont, ýmislegt hafi verið fært til betri vegar, annað hafi jafnvel versnað að hans mati og í sumum tilfellum sé ekki nógu langt gengið. Ég verð að segja að ég sakna tillagna Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum, og kalla eftir þeim enn og aftur. Ég tel mig hafa fundið það að í nefndinni sé að minnsta kosti ríkari vilji til að vinna þetta mál af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins en þeir hafa leyft sér að láta koma þar fram. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að geta verið meiri þátttakandi í þessu og að einstakir fulltrúar, alla vega í nefndinni og jafnvel fleiri í þingflokknum, séu tilbúnir til þess.

Ég hlýt að spyrja: Hvar eru tillögur Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum? Hverju vilja menn breyta þegar sagt er að það séu vissulega nokkur atriði sem flokkurinn vill breyta? Hvar eru tillögurnar? Einu sinni var sagt að Sjálfstæðisflokkurinn væri uppi í Valhöll að skrifa sínar (Forseti hringir.) eigin tillögur til stjórnarskrár. Þær hafa aldrei komið hér fram.