141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum í umræðum margoft nefnt ákveðna þætti sem við teldum að væru þess virði að setjast niður og ræða. Við höfum talið að forsendur gætu verið til þess að fulltrúar ólíkra sjónarmiða settust niður og ræddu saman um auðlindaákvæðið, um ákvæði um framsal ríkisvalds, um þjóðaratkvæðagreiðslur, svo að dæmi séu tekin um mál sem hafa verið töluvert mikið í umræðunni. Skilaboðin sem við höfum fengið þegar við höfum nefnt þetta í opinberri umræðu hafa alltaf verið þau að ekki stæði annað til en að klára frumvarpið í heild og við það höfum við verið ósátt. Ég taldi mig koma inn á það í ræðu minni hér áðan að við ætluðum okkur ekki að taka þátt í að stagbæta þetta frumvarp sem við teljum að sé byggt á skökkum grunni, þannig að það sé nú sagt aftur.

Varðandi hamingjuóskir og annað — ég ætlast ekki til þess og upplifi það ekki þannig að við eða aðrir eigum skilið einhverjar hamingjuóskir, það eru ekki þannig tilfinningar sem bærast í mér. Ég lít ekki svo á að í þessu máli sé einhver sigurvegari. Ég held við verðum fyrst og fremst að meta stöðuna raunhæft og mér finnst yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarflokkana síðustu daga bera með sér meira raunsæi en áður hefur komið fram af þeirra hálfu um það hvað raunhæft sé að gera og hverju raunhæft sé að ljúka. Ég fagna því út af fyrir sig vegna þess að það er í samræmi við það sem ég hef sjálfur sagt margoft, ekki síst nú á síðustu vikum.

Hæstv. forseti. Varðandi framhald málsins ætla ég svo sem ekki að fara út í umræður um þingsályktunartillögur eða frumvörp sem hugsanlega birtast hér síðar í dag. Við verðum að taka þá umræðu þegar við sjáum á þau spil.