141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan að Sjálfstæðisflokkurinn væri því andvígur að endurskrifa alla stjórnarskrána eða eitthvað á þá leið, en vildi heldur taka út einstaka kafla, væri á móti því verklagi að hafa alla stjórnarskrána undir. Nú vil ég vekja athygli þingheims á því að í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október vildu 67% kjósenda að hér kæmi fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá á grunni tillagna stjórnlagaráðs. Hverjar voru þær? Þær voru um heildarendurskoðun. Það er því ekkert óeðlilegt að þingið, og við sem höfum fengið það verkefni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að færa málið áfram, hlusti á slíkar niðurstöður.

Hv. þingmaður hefur nefnt hér nokkur mál. Ég er honum sammála um að mjög brýnt er að ná samstöðu um valdaframsalið, fullveldisframsalið, það er alveg klárt, og við höfum marglýst því yfir að við viljum vinna það í samvinnu milli allra flokka. Það atriði sem hann nefndi varðandi alþjóðastofnanir sem Ísland á ekki aðild að, það hefur líka verið nefnt af hv. formanni utanríkismálanefndar að sjálfsagt væri að hlusta á þær athugasemdir og vinna það lengra. Það hefur verið gert í þessum ræðustól en engin viðbrögð hafa verið, engin viðbrögð önnur en þau sem hér hafa verið látin í ljós, að þetta sé ómögulegt.

Varðandi endurskoðun á stjórnarskrá er ég líka sammála hv. þingmanni um það að mjög mikilvægt er að fara varlega og það þarf að ná tiltekinni sátt og það á ekki breyta stjórnarskrá í takti við dægurmál. Hér er gerð tillaga um að 60% þings og 60% þjóðar, eftir hálft ár eða níu mánuði, breyti stjórnarskrá. Ég tel að Sjálfstæðisflokknum ætti ekki að vera (Forseti hringir.) neitt að vanbúnaði að vinna þetta mál áfram með okkur svona. Málið er bara að þessi (Forseti hringir.) flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, vill það ekki, hann vill ekki sjá að taka þátt í þessu og mun gera allt sem (Forseti hringir.) hann getur til að stöðva málið með einum eða öðrum hætti. Ég er ekki viss um honum hafi tekist það enn þá (Forseti hringir.) en við sjáum til.