141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpu ári síðan eða svo sagði ég í þessum ræðustól að það mál sem við ræðum væri þannig statt að það mundi lenda í öngstræti. Ég held að það hafi því miður komið í ljós. Í sömu ræðu lagði ég áherslu á að menn mundu setjast niður og reyna að setja málið í annan farveg, meiri friðar- og sáttafarveg þannig að hægt væri að ná fram einhverjum breytingum. Ekki var hlustað á það og það varð því miður ekki raunin. Við framsóknarmenn og fulltrúi okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum lagt mikla áherslu á að vönduð vinnubrögð yrðu viðhöfð við breytingar á stjórnarskrá og þokkaleg sátt mundi ríkja um ferlið. Hægt er að finna margar ræður þar sem við þingmenn Framsóknarflokksins höfum talað fyrir því að betri sátt þyrfti að ná um málið og ferlið allt.

Það má kannski segja að vandræðagangur, sem ég vil kalla svo, varðandi ferlið og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um næstu skref eru hluti af því að við erum í þessum vanda, ég ætla að leyfa mér að kalla það vanda, með málið. Hér var boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu með, ef ég man rétt, ekki svo miklum mun í þinginu. Við gagnrýndum það mjög mörg hvernig að henni var staðið, hvernig spurningar voru orðaðar og um hvað var spurt. Önnur gagnrýni á þetta allt saman er svo sem margbúin að koma fram.

Ég held að mestu mistökin hafi í raun verið þau þegar stjórnlagaráð, sem var skipað af Alþingi, ákvað að skrifa nýja stjórnarskrá í stað þess að gera nauðsynlegar breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Ég hef alltaf verið á móti því að farin hafi verið sú leið að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Ég hef ekki talið þörf á því. En við erum á þessum stað í dag þar sem við erum að fjalla um nýja stjórnarskrá og breytingar á breytingar ofan á því frumvarpi sem fyrst var lagt fram.

Ég sé að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur til ýmsar breytingar. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég hef ekki náð að lesa þær allar saman við fyrri plögg og athugasemdir. Ég er hins vegar með samantekt sem ég lét gera fyrir mig um athugasemdir við frumvarpið áður en nefndin tók það síðast inn til sín en ég á eftir að lesa saman hvort búið er að breyta því öllu eins og ég hefði talið rétt.

Ég ætla að nefna bara nokkur atriði, ég ætla ekki að tala mjög lengi, nokkur atriði sem hafa alltaf stungið mig í þessu máli. Mér finnst til dæmis að ákvæðið um að banna herskyldu sé í raun yfirlýsing sem eigi ekki endilega heima í stjórnarskrá því að við vitum að ef ráðist yrði á Ísland eða við þyrftum að bregðast við einhverju slíku mundi væntanlega allir reyna að leggja sitt af mörkum. Ég átta mig ekki alveg á því til hvers þetta er í stjórnarskránni og þarf ekkert að láta reyna að troða því inn í hausinn á mér, ég er bara á móti því.

Síðan velti ég fyrir mér, þó að ég sé sammála því að nauðsynlegt sé að opna á beina lýðræðið, hvort þau viðmið eða þær tölur sem hafa verið nefndar séu of lágar, og sumum kann jafnvel að finnast þær of háar.

Síðan hef ég áhyggjur af framsalsákvæðinu vegna alþjóðasamvinnu, að við getum framselt vald þar. Mér finnst að við þurfum að skoða það aðeins dýpra og betur og svara því.

Ég er á móti því að breytingarákvæðið nái fram að ganga, ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera mjög erfitt að breyta stjórnarskrá, eða í það minnsta erfitt. Það kann að vera að hægt sé að útfæra ýmislegt innan þessa ákvæðis en ég held að við ættum ekkert endilega að vera að hræra í því núna.

Ég hef líka talað fyrir því hér og ætla að gera það enn og aftur, og það er í samræmi við það sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á síðasta flokksþingi, að vinna áfram með stjórnarskrána. Það er búið að opna það ferli að gera breytingar á stjórnarskrá, við eigum þá að gera það á næsta þingi, en ég er hins vegar andvígur því að hendur þess þings séu bundnar með einhverjum hætti. Það er aftur á móti ljóst að til eru orðnir býsna margir metrar af pappírum um málið, bæði nýlegum og eldri, sem geta nýst og það ætti að vera það sem lagt verður til grundvallar fyrir þá vinnu.

Frú forseti. Miðað við þær umræður sem hafa orðið um þessa nýju stjórnarskrá og þær greinar sem í henni eru er það mitt mat að óraunhæft sé að klára frumvarpið í heild á þessu þingi og ég hef sagt það býsna lengi. Við framsóknarmenn lögðum fram þá yfirlýsingu 21. janúar að rétt væri að vinna að einstökum greinum í því til að reyna að ná um þær eins mikilli sátt og hægt væri. Ekki hefur orðið af því og þar af leiðandi verðum við að reyna að vinna úr þeirri stöðu sem nú er uppi.

Frú forseti. Ég veit að hér á að gera hlé eftir stund og einhver andsvör bíða þannig að ég ætla að ljúka máli mínu.