141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vonandi í fleiri flokkum sem menn geta haft mismunandi skoðanir á mismunandi málum. Þannig er nú með það sem við samþykktum, 2009 held ég að það hafi verið, það var að boða til stjórnlagaþings, ekki stjórnlagaráðs, við skulum alveg hafa það á hreinu. Á því geri ég mikinn mun. Þó að hv. þingmaður hlæi að því geri ég mikinn mun á því. Aðferðafræðin sem var notuð til að velja á stjórnlagaþingið var stórgölluð og algjörlega fráleit og það kom í ljós. Hæstiréttur úrskurðaði reyndar að þessi kosning væri ógild af öðrum ástæðum. Ég greiddi atkvæði í þinginu með því að farin yrði þessi stjórnlagaþingsleið. Ég samþykkti það hér þó að ég hafi alltaf, eins og ég segi, verið á móti því að gera þetta. Það var ákvörðun þingflokks framsóknarmanna að styðja þetta, fara eftir því sem flokksþingið ályktaði í þessu máli og við það stóð ég. Einhver kann að spyrja hvort ég hafi farið gegn sannfæringu minni. Já, að einhverju leyti, en ég var hins vegar tilbúinn til þess að breyta ákveðnum ákvæðum í stjórnarskránni og ef þetta var sú leið sem menn vildu fara varð svo að vera.

Eftir að þessi stjórnlagaþingskosning var úrskurðuð ógild hef ég alltaf talað gegn því ferli, alla tíð, og alltaf varað við því að það mundi leiða okkur í ógöngur vegna þess að ég hafði ekki trú á því að menn ættu að grípa svona inn í, heldur ættu menn að byrja upp á nýtt. Við hefðum þá getað velt fyrir okkur hvernig við gætum komið saman stjórnlagaþingi sem endurspeglaði raunverulega þjóðina sem átti að koma þar að. Þjóðfundurinn tókst ágætlega, var mjög forvitnileg tilraun og margt gott sem þaðan kom. Eftir hann fannst mér þetta allt fara úr böndunum.

Ég verð að segja að (Forseti hringir.) ef við hefðum verið með (Forseti hringir.) stjórnlagaráð sem hefði endurspeglað betur þverskurð þjóðarinnar er ég ekki viss um að tillögurnar hefðu allar litið út eins og þær sem komu svo frá ráðinu.