141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætti að reyna að snúa þessu við, en það er kannski ókurteisi að spyrja: Af hverju þarf að breyta þessu ákvæði? Hvers vegna vilja menn (Gripið fram í: Svaraðu.) breyta því? Ég velti fyrir mér hvers vegna eigi að gera það.

Ég er kannski íhaldssamur og þver og gamall að þessu leyti, það getur vel verið, en mér finnst ákvæðið mjög gott eins og það er í dag. Það kann vel að vera að hægt sé að rökstyðja að sú aðferð sem hér er lögð upp sé erfið af því að það þarf 60% og svo aftur 60% kjörsókn, eða hvað það kallast. En ef við erum komin á þann stað að við erum farin að segja að þetta sé jafnerfitt eða álíka erfitt og núverandi ákvæði er hvort sem er spyr ég: Hvers vegna þarf þá að breyta því? Hvert er markmiðið, hvað býr að baki því að það þurfi að vera hægt að breyta stjórnarskránni með einfaldari hætti en nú er?

Ég ætla ekki að segja nákvæmlega hvað í þessu mér finnst létt, miðlungsgott eða erfitt, eitthvað svoleiðis. Ég held bara að fyrirkomulagið í stjórnarskránni í dag sé býsna öruggt. Mér finnst þurfa miklu betri rök fyrir því að því þurfi að breyta.