141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég hefði gjarnan viljað fá aðeins málefnalegri rökstuðning frá fulltrúa Framsóknarflokksins í þessum umræðum en mig langar að spyrja nokkurra spurninga út frá því sem kom fram í máli þingmannsins.

Hver er munurinn á stjórnlagaráði og stjórnlagaþingi? Ég man ekki betur en að fulltrúi Framsóknar hafi tekið þátt í þeirri vinnu að finna lausn á þessu máli á sínum tíma. Rýrir það eitthvað vægi stjórnlagaráðs að sömu fulltrúar voru þar og voru réttilega kjörnir í báðum tilfellum, báðum úrlausnum?

Svo er annað sem mig langaði að spyrja um. Ég hjó eftir því í ræðu þingmannsins að hann væri sáttur við að breyta einhverjum hlutum stjórnarskrárinnar. Hvaða hlutar eru það?

Síðan langaði mig að benda á eitt varðandi 6/60-leiðina í breytingum, hún er ekki eingöngu lýðræðislegri af því að ekki er hægt að stöðva allar stjórnarskrárbreytingar eins og hefur verið gert ítrekað á þinginu, heldur felur hún jafnframt í sér aðkomu almennings. Það er gríðarlega mikilvæg breyting og það er meðal annars þess vegna sem við fórum í að breyta núgildandi stjórnarskrá. Ef almenningur veit ekki hvernig stjórnarskráin okkar er hverju sinni er svo auðvelt að svindla á henni með öllum þessu litlu gráu svæðum. Ef almenningur veit um hvað stjórnarskráin snýst og er sáttur við hana eins og hún er, eins og kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október, eru miklu meiri líkur á að almenn sátt ríki í samfélaginu okkar eftir það mikla hrun sem við fórum í gegnum og við fengjum þar af leiðandi kjörið tækifæri til að breyta samfélaginu okkar vonandi til batnaðar. Finnst þingmanninum það ekki mikilvægt?