141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Í fyrsta lagi koma að mínu viti, ég er margbúinn að segja það hér, breytingar á stjórnarskrá hruninu ekkert við, bara ekki neitt. Hrunið varð ekkert af því að stjórnarskráin væri gölluð eða eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í.) Það er algjörlega fráleitt að halda slíku fram. (Gripið fram í.) Menn eiga ekkert að breyta stjórnarskrá til þess að — ja, ég veit ekki hvað menn ætla að gera í framhaldinu ef þeir tengja stjórnarskrána við hrunið, eins og mér finnst hv. þingmaður gera með spurningu sinni. (Gripið fram í.) Þannig skildi ég það. Mér fannst spurningin vera þannig.

Þegar hv. þingmaður talar um að svindla á stjórnarskránni verð ég að segja að eins og ég hef skilið þær athugasemdir sem hafa komið fram við frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og frumvarp stjórnlagaráðs vöruðu menn einmitt við því að það væri hugsanlega auðveldara að svindla á stjórnarskránni í því frumvarpi en þeirri gömlu. (Gripið fram í.) Það væri svo auðvelt að túlka greinarnar út og suður, austur og vestur, sem yrði þá til þess að menn reyndu að nýta sér það óheiðarlega, ef það er það sem þingmaðurinn er að velta fyrir sér.

Þingmaðurinn spyr líka um muninn á stjórnlagaráði og stjórnlagaþingi. Nú svara ég fyrir mig: Stjórnlagaþing var kosið í almennri kosningu og Hæstiréttur sagði að kosningin hefði verið ógild, þ.e. að ekki hefði verið rétt að henni staðið. Ef menn hefðu ætlað að fara áfram með þetta mál átti að kjósa aftur og þá átti (BirgJ: Af hverju …?) að breyta reglunum. Við sögðum það margoft hér, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, í þessum ræðustól.

(Forseti (ÞBack): Gefið ræðumanni hljóð.)

Það þarf bara að skoða ræður þess sem hér stendur frá þeim tíma. Ég sagði að það ætti að fara þá leið og að ég mundi meira að segja styðja það ef það yrði gert. En það hefði orðið að gera það eftir öðrum kosningareglum en voru viðhafðar við kosningu til stjórnlagaþings því að þær voru stórkostlega gallaðar og sýndu að persónukjör með landið allt undir í einu kjördæmi er ekki hægt, algjörlega galið, bara fáránlegt. (Forseti hringir.) Það var það sem ég gagnrýndi.