141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nýtt ákvæði um auðlindir Íslands í stjórnarskrá, ég vil breyta því. Ég vil ekki gera það eins og tillagan er orðuð og ég er ekki sáttur við textann í fyrirliggjandi frumvarpi. Ég tel hins vegar algjört lykilatriði að ef við ætlum að reyna að ná fyrir þinglok í gegn einhverjum breytingum á stjórnarskrá eigi að leggja höfuðáherslu á það. Þar á að skýra það að náttúruauðlindirnar séu eign íslensku þjóðarinnar, hvernig sem það orðalag verður svo það standist. Við eigum líka að tala um að þeir sem nýta auðlindirnar hafi ákveðnar skyldur. Því fylgja líka réttindi vegna þess að þeir eru þá með nýtingarrétt, eitthvað svoleiðis, hvort sem það er sjór eða raforka eða annað. Mestu skiptir að við búum til auðlindaákvæði sem menn eru sammála um skilninginn á. Ég vil reyna að klára það svo dæmi sé tekið. (Forseti hringir.) Ég hef líka talað fyrir því, og við framsóknarmenn, að við reynum að koma okkur saman um greinar er varða beina lýðræðið, (Forseti hringir.) að finna þar leiðir sem við getum öllum sammælst um. (Forseti hringir.) Ég held að þetta ætti að vera hægt ef menn mundu sökkva sér ofan í það í hvelli.