141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að mæla fyrir breytingartillögu þar sem ég er ekki sammála einu orði í tillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nýrri stjórnarskrá, það er orðið „eðlilegt“. Þar vil ég að komi „fullt gjald“, eins og stjórnlagaráð lagði til. Það er að sjálfsögðu í auðlindaákvæðinu. Ég vil að eðlilegt gjald breytist í fullt gjald. Ég vona svo sannarlega að greidd verði atkvæði um tillögu mína.

Forseti. Vanvirðing þingmanna og þingsins við þjóð sína virðist hafa náð nýjum hæðum. Sú óvirðing sem Alþingi sýnir landsmönnum, þegnum þessa lands, með því að ætla að klúðra þessu máli vísvitandi, að því er virðist, er yfirgengileg. Ný stjórnarskrá var kosningaloforð. Ég bauð mig fram til þings fyrir Borgarahreyfinguna og þetta var eitt af okkar aðalmálum og þetta er enn eitt af mínum aðalmálum.

Framsóknarflokkurinn auglýsti grimmt fyrir síðustu kosningar. Hann lofaði stjórnlagaþingi fólksins, hann lofaði auknum völdum til fólksins. Af hverju stendur flokkurinn ekki við loforð sín? Stjórnarskrá var líka baráttumál stjórnarflokkanna en ný stjórnarskrá var hins vegar ekki baráttumál Sjálfstæðisflokksins. Hann barðist hart gegn þeirri hugmynd að breyta 79. gr. á síðasta þingi til að auðvelda stjórnarskrárbreytingar á því kjörtímabili sem nú er brátt á enda. Sjálfstæðisflokkurinn er því ekki að svíkja sína kjósendur sína, þvert á móti, Sjálfstæðisflokkurinn er að efna kosningaloforð sitt og allir aðrir virðast ætla að aðstoða hann við það. Allir hinir svíkja því kjósendur sína. Framsóknarflokkurinn í heild sinni svíkur kjósendur sína. Það er sorglegt því að mér virðist mikill meiri hluti þingmanna stjórnarflokkanna, þingmanna utan flokka og sannarlega líka þingmenn Hreyfingarinnar vilja klára málið núna, ekki seinna enda er ekkert að vanbúnaði. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur velt við hverjum steini og flestir stjórnarþingmenn hafa farið ítarlega yfir bæði nefndarálitin og frumvarpið og allar breytingartillögur. Þau sjá það sem liggur í augum uppi, að málið er tilbúið.

Það eina rökrétta í stöðunni er að klára málið. En hvar er þá fyrirstaðan? Af hverju er vísvitandi verið að sigla málinu hratt og örugglega í strand? Af hverju vilja menn ekki klára málið núna? Af hverju vilja menn ekki lúta þjóðarvilja? Hvernig dirfast þingmenn að búa til þá atburðarás sem nú er að opinberast? Er það kannski vegna þess að með nýrri stjórnarskrá er verið að færa völd til almennings frá stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum? Er það kannski vegna þess að með nýrri stjórnarskrá færum við þjóðinni arð af auðlindum sínum í stað þess að láta örfáa einstaklinga hirða hann? Er það út af því? Eða vilja menn ekki að þegnar þessa lands njóti aukinna mannréttinda almennra borgara? Er það vegna aukinna krafna um upplýsingagjöf vegna fjármála frambjóðenda og stjórnmálaflokka eða krafna um hæfi þingmanna til að taka þátt í málum sem snerta með beinum hætti þá sjálfa eða fólk þeim nákomið? Eða er það kannski 95. gr. um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra þar sem kveðið er á um að ráðherra beri alltaf að gefa réttar upplýsingar? Hentar það kannski ekki eða er það óraunhæf krafa? Ég spyr.

Forseti. Heildarendurskoðun á stjórnarskrá hefur staðið til síðan 1944. Þingið hefur ekki ráðið við það verkefni en þegar botninum var náð hér eftir allsherjarhrunið haustið 2008 áttaði þingið sig á því að það þyrfti að gera eitthvað til að breyta og fól þjóðinni það verkefni. Ferlið hefur vakið aðdáun umheimsins og öllum landsmönnum hefur margsinnis verið boðið að borðinu á ýmsan hátt með þátttöku.

Forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að svíkja einn eða neinn. Svikin eru annars staðar. Flestir þingmenn standa með málinu en sem fyrr þora menn ekki að standa fyrir máli sínu. Ég ætla ekki að svíkja þessa þjóð. Ég ætla að reyna að gera allt sem ég get til þess að koma þessu máli í gegn. En, forseti. Ég lýsi hér eftir hugrekki og heiðarleika á Alþingi, að menn standi við það sem þeir lofa.