141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún talaði um heiðarleika og að menn ættu að standa við það sem þeir segðu. Nú vill svo til að hv. þingmaður er meðflutningsmaður minn á frumvarpi til breytingar á stjórnarskipun, einmitt um breytingu á 79. gr., frumvarpi sem ég sem sjálfstæðismaður hef flutt í þrígang. Hv. þingmaður sagði að sjálfstæðismenn vildu engar breytingar. Ég er ekki allir sjálfstæðismenn en ég er hluti af þeim. Mér finnst hv. þingmaður ekki sérstaklega heiðarleg þegar hún segir að allir sjálfstæðismenn séu á móti breytingum á stjórnarskránni. Hún er með mér á frumvarpinu ásamt fjöldamörgum öðrum þingmönnum. Við erum 12 sjálfstæðismenn á frumvarpinu um breytingu á 79. gr., þ.e. hvernig stjórnarskránni skuli breytt. Þar vil ég hafa nokkuð háa þröskulda þannig að menn geti ekki breytt stjórnarskránni alla daga. Ég vil hafa hana seigbreytilega.

Í þeirri tillögu sem hv. þingmaður stendur að í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er gert ráð fyrir að tiltölulega auðvelt sé að breyta stjórnarskránni þannig að þingmeirihluti á Alþingi, tveir þriðju, sem gæti verið ríkisstjórn — það getur vel verið að það sé rangt hjá mér, að þingmaðurinn sé ekki með á þeirri tillögu, en það er tillagan sem nú er til umræðu og er einmitt það mál sem hv. þingmaður vill styðja — þ.e. jafnvel ríkisstjórnarmeirihluti, geti breytt stjórnarskránni. Síðan er gert ráð fyrir að tillagan fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar geti tveir þriðju þeirra sem taka þátt breytt stjórnarskránni, þ.e. ef þátttakan er 40% gætu 24–25% þjóðarinnar greitt atkvæði og ákveðið breytingu á stjórnarskránni. Það finnst mér ekki nógu gott.