141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:02]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Forseti. Við ræðum stjórnarskrána sem ekki verður. Þetta eru því útfarararræður stjórnarskrárinnar sem þingið hefur unnið að í á fjórða ár. Það er dapurlegt að hlusta á ýmsa, t.d. stjórnarliða, tala um mikilvægi málsins þar sem þeir standa svo ekki við sannfæringu sína um að reyna að klára málið með þeim þingskapalegu tækjum sem til eru.

Verkefninu var útvistað á sínum vegna þess að Alþingi hefur alla tíð mistekist að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina. Því var útvistað samhljóða héðan úr þingsal til almennings. Það var skipuð stjórnlaganefnd sjö manna til þess að vinna áfram að málinu. Það var haldinn þúsund manna þjóðfundur með slembiúrtaki úr þjóðskrá og síðan var kosið stjórnlagaráð með persónukjöri, 500 manns voru í framboði og 84.000 atkvæði voru greidd. Það stjórnlagaráð skrifaði drög að nýrri stjórnarskrá fyrir þjóðina, stjórnarskrá þjóðarinnar sem var skrifuð fyrir þjóðina og af þjóðinni. Sú stjórnarskrá, eða þau drög, fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 67% eða 2/3 hlutar þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu að fá þá stjórnarskrá sem sína nýju. Hvað gerist svo í kjölfarið? Alþingi Íslendinga hafnar því í dag í þessum töluðu orðum að klára málið.

Forseti. Í lýðræðisríki kemur allt vald frá þjóðinni. Lýðurinn, þ.e. almenningur, ræður. Stjórnarskipti í lýðræðisríkjum eru friðsamleg. Stjórnmálaumræða í flestum tilfellum er friðsamleg. Lýðræðisríki eru yfirleitt ríki sátta og friðar. Í öðrum ríkjum ræður yfirleitt lítil klíka fólks, annaðhvort með hervaldi eða öðru ofbeldi. Almenningur ræður ekki og það eru ekki lýðræðisríki.

Á Íslandi í dag hefur lítil klíka fólks á Alþingi Íslendinga með klækjum, en jafnframt með stuðningi þingmanna sem þora ekki að standa við sannfæringu sína, stöðvað framgang þjóðaratkvæðagreiðslunnar, stöðvað framgang nýrrar stjórnarskrár, tekið valdið af þjóðinni og gert Ísland að einhvers konar öðru ríki en lýðræðisríki. Sá dagur mun að sjálfsögðu verða meitlaður í Íslandssöguna sem einn af mestu sorgardögum lýðveldisins, þess lýðveldis sem virðist ekki ætla að lifa í 70 ár. Það er stjórnarskrárbundin skylda þingmanna að standa við sannfæringu sína, það stendur skýrt í stjórnarskránni. Þeir sverja eið að þeirri stjórnarskrá þegar þeir taka sæti á þingi.

Á Alþingi í dag er fólk sem ég veit persónulega að hefur sannfæringu fyrir því að sú stjórnarskrá sem við höfum verið að ræða eigi að vera ný stjórnarskrá Íslendinga en þeir ætla ekki að standa við þá sannfæringu sína heldur fylgja lítilli klíku forseta Alþingis, formanni Samfylkingarinnar, formanni Bjartrar framtíðar, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, falla frá sannfæringu sinni og hafna því að reyna með öllum ráðum að klára málið. Lýðræðinu hefur verið hent og alræði lítillar klíku tekið við.

Ég velti því upp hér hver framtíðarsýn þessa fólks og annarra þingmanna er fyrir Ísland fjórum árum eftir hrun. Þingið hefur enn ekki sett sér siðareglur en það hefur endurreist bankakerfið á sömu forsendum og voru fyrir hrun. Þingið hefur enn ekki tekið með viðeigandi hætti á samþættingu stjórnmála og fjármálafla í landinu en það hefur endurreist bankakerfið. Þingið hefur enn ekki tekið á skuldavanda heimilanna heldur bindur í atkvæðagreiðslu í dag, undir einhverju sem var kallað neytendalán, verðtryggingu skulda heimilanna ár eða áratugi fram í tímann.

Forseti. Alþingi Íslendinga birtist mér í dag sem misheppnuð stofnun sem hefur í raun ekki tilverurétt, stofnun sem er að forminu til lögleg en skilar í raunveruleikanum ekki því sem hún á að gera. Það er algjörum tilviljunum háð hvaða frumvörp og hvaða löggjöf verða að lögum. Það eina sem menn geta nokkurn veginn reitt sig á er fjárlagafrumvarpið og matseðill vikunnar. Önnur mál eru algjörlega háð tilviljunum og eru afgreidd út af borðinu einum til tveimur dögum fyrir þinglok í baktjaldamakki formanna stjórnmálaflokka. Núna bíða 76 þingmál afgreiðslu, mörg þeirra mjög góð mál og mikilvægast allra er stjórnarskrármálið, en þau verða afgreidd út af borðinu í baktjaldamakki. Það er ömurlegt að verða vitni að því.

Það er ömurlegt að þurfa að standa hér í dag og tala með þessum hætti í stað þess að geta haldið ræðu um stjórnarskrána, nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland sem þjóðin vill. Þess í stað er þessi ræða, og hver einasta ræða flutt af því tilefni í dag, útfararræða stjórnarskrárinnar. Vonandi munu kjósendur á Íslandi minnast þessa dags í framhaldinu, þann 27. apríl næstkomandi þegar fjórflokkurinn, sem í dag er að slátra stjórnarskránni, býður sig fram til þjónustu fyrir þjóðina eitt kjörtímabilið enn. Vonandi mun almenningur muna þann dag.