141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Hann talaði reyndar um baktjaldamakk og útfarararræður og að slátra, orð sem ég nota nú alla jafna ekki. Mig langar til að spyrja hann hvort stuðningur hans við ríkisstjórnina sé á einhvern máta tengdur því máli, og hafi verið, og hvort sá stuðningur sé horfinn.

Í síðustu viku lagði hv. þingmaður fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina og dró hana til baka. Það er náttúrlega spurning, og ágætisspurning, til hv. þingmanns hvort hann muni flytja hana aftur og þá hvenær. Það kom alveg greinilega fram að vantraustið var tengt því að tillögur stjórnlagaráðs áttu að vera umræðugrundvöllur fyrir því að þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga yrði samþykkt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig getur hann talað um að aðrir stundi baktjaldamakk?