141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Svarið til hv. þm. Péturs H. Blöndal er að ég hef setið fleiri en einn og fleiri en tvo fundi þingflokksformanna og formanna stjórnarflokkanna í forsætisnefndarherbergi rétt fyrir þinglok þar sem verið er að véla um hvaða mál eiga að fá framgang og hver ekki. Það er baktjaldamakk. Það er ekki að leiða mál í gegnum þingið með lýðræðislegri niðurstöðu, upplýstri umræðu og gegnsæi eins og viðgengst í hefðbundnum alvörulýðræðisríkjum. Það er baktjaldamakk, hv. þingmaður.

Hreyfingin hefur ekki stutt þessa ríkisstjórn. Aldrei. Hún hefur hins vegar stutt ýmis mál sem hafa komið frá henni en gagnrýnt önnur og tekið mjög einarða afstöðu gegn þeim. Ég leyfi mér að benda á einarða afstöðu Hreyfingarinnar til dæmis gegn fjárlagafrumvarpi hvers árs þar sem við höfum eindregið hvatt til breytingar. Við höfum hins vegar stutt þetta stjórnarskrármál og unnið að því af heilindum og af heilum hug allan tímann, alveg frá upphafi og til enda þess hér í dag. Það er meira en hægt er að segja um marga stjórnarliða, því miður, en þar höfum við lagt okkar lóð á vogarskálarnar og erum að sjálfsögðu skúffuð yfir því að lítil klíka skuli slá málið út af borðinu eins og virðist vera að gerast í dag. Það hefur líka gerst með baktjaldamakki. Málið fær því miður ekki lýðræðislega niðurstöðu í atkvæðagreiðslu í þingsal þar sem afstaða manna kemur skýrt fram. Því miður gerist það ekki því að fólkið sem vill ekki að það gerist þorir ekki að standa frammi fyrir atkvæðagreiðslu í þingsal.