141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:13]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Nú er svo sem ágætt að ég standi skil gjörða minna og áhugamála við hv. þm. Pétur H. Blöndal eins og ég mögulega get. Hvað varðar vantrauststillöguna um daginn var hún sett fram til að reka á eftir því að stjórnarskrármálið fengi viðunandi ramma í umræðu á þingi. Þegar kom í ljós að líkur voru á að það gerðist og málið yrði afgreitt með viðeigandi hætti var að sjálfsögðu ekki um annað að ræða en draga þá vantrauststillögu til baka. Nú þegar ljóst er að málið verður ekki afgreitt hefur sú afstaða mín persónulega ekkert breyst, það er algjörlega óboðlegt að lítil klíka þingmanna, þótt þeir nái kannski 32 að tölu, sitji áfram að völdum. Það er algjörlega óboðlegt þegar gengið er svoleiðis gegn lýðræðinu eins og ætlunin er að gera í dag. Þess vegna liggur það nánast í augum uppi að menn þurfa að standa skil gjörða sinna hvað vantrauststillögu varðar. Það mun hins vegar einfaldlega koma í ljós, annaðhvort síðar í dag eða á morgun, hvort af verður en eins og útlitið er í dag mun ný stjórnarskrá deyja drottni sínum í þessum þingsal sem afleiðing baktjaldamakks. Þá er það bara þannig. Þeir sem standa að því baktjaldamakki munu vonandi þurfa að standa skil gjörða sinna einhvers staðar síðar.