141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir áhugann sem ég veit að hann hefur sýnt þessu máli og ég hef sannarlega orðið vör við og er þakklát fyrir.

Mig langaði að ræða við hann um þröskulda í breytingarákvæði í stjórnarskrá. Þeir eru gífurlega mikilvægir. Við erum bæði sammála um að það á ekki að vera of auðvelt að breyta stjórnarskránni. En í öllu því sem ég hef lesið síðustu tvö árin um þetta, þá á ég við fræðigreinar og annað, virðist það vera algjört grundvallaratriði hjá þeim sem hafa skrifað um beint lýðræði, og ég er sammála þeirri skoðun, að fólk geti ekki haft áhrif á úrslit kosninga með því að hunsa kosningar.

Nú virðist kosningaþátttaka almennt vera að minnka. Til dæmis var óvenjulítil þátttaka í forsetakosningunum í sumar. Ég velti fyrir mér, með sömu rökum: Ættum við ekki bara að hafa kjörtímabil forseta tvö ár fyrst bara helmingur kjósenda mætti á kjörstað? Ég veit að þingmaðurinn er náttúrlega miklu betri í stærðfræði en ég en það er vel hægt að reikna út dæmi þar sem tiltölulega lítill hluti kjósenda mundi stóla á þau 20, 30% sem mæta hvort sem er aldrei í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá hluti gæti tekið sig til og eyðilagt kosningu með því að mæta ekki og haft þannig mun meiri áhrif á útkomuna en nokkurn tímann ef hann hefði mætt og greitt atkvæði með eða á móti málinu.