141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil samt halda því til haga að ef við gerum kröfu um lágmarksþátttöku gefum við fólki þann kost að kjósa með rassinum, þótt það sé nú ekki skemmtilegt orðalag. Ég vil líka benda á að breytingar á stjórnarskrá geta verið mjög tæknilegar og ekki höfðað til almennings. Mér dettur í hug ein breyting sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerir á því sem var 74. gr. í frumvarpinu, en yrði 75. gr., um Ríkisendurskoðun, sem ég get ekki ímyndað mér að stór hluti Íslendinga mundi nenna að mæta í þjóðaratkvæðagreiðslu út af. Fyrsta málsgrein þeirrar greinar hljóðaði upphaflega þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til fimm ára.“ Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill breyta því í: „Alþingi kýs forstöðumann Ríkisendurskoðunar.“

Ástæðan fyrir breytingunni er sú að endurskoðandi er löggilt starfsheiti og þá yrði alltaf gerð sú krafa og ekki væri hægt að breyta henni að ríkisendurskoðandi þyrfti að vera endurskoðandi. Hlutverk Ríkisendurskoðunar hefur verið að þróast og breytast. Það er ekkert endilega þannig að við viljum um alla framtíð að löggiltur endurskoðandi sé í starfi forstöðumanns stofnunarinnar. Við vildum því opna á þetta. Mörgu svona gæti þingið viljað breyta og það gæti verið mjög erfitt að fá 60 eða 70% þjóðarinnar til að mæta á kjörstað til að gera svona smávægilegar og ég leyfi mér að segja ómerkilegar breytingar.