141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hitti naglann á höfuðið í lokasetningu í svari sínu hér áðan þegar hann sagði að þessi umræða væri orðin býsna löng. Það er auðvitað mergurinn málsins þrátt fyrir það sem mikið er haldið fram í umræðunni hér, að það eigi að keyra stjórnarskrána í gegn, eins og stundum er sagt, sem á ekki við rök að styðjast. Orð hv. þm. Péturs Blöndals voru rétt, þessi umræða er orðin ansi löng. Vinnan við undirbúning þessarar stjórnarskrár hefur verið mikil og hefur tekið langan tíma og fjölmargir hafa komið að henni. Þess vegna vil ég segja að það er dapurlegt í sjálfu sér að þetta Alþingi virðist ekki vera í færum til að ljúka því máli í heild sinni.

En ég vil líka segja að stundum er krókur betri en kelda og stundum þurfa menn vegna aðstæðna að taka lengri tíma og taka á sig krók til að ná markmiðum sínum. Það kann að vera betra en að lenda í keldu með málið. Það vil ég segja við vini mína, hv. þingmenn Hreyfingarinnar — og sérstaklega vegna orða hv. þm. Þórs Saaris áðan, þar sem hann var mjög stóryrtur í garð Alþingis sem stofnunar og stjórnmálaflokkanna, meðal annars þess sem ég er fulltrúi fyrir — að menn verða stundum að meta aðstæðurnar og hvernig markmiðunum verður best náð í heild sinni. Auðvitað er það það sem verið er að reyna að gera. Það er verið að reyna að ná utan um málið, tryggja því áframhaldandi vinnu og farveg og ná einhverjum áföngum á þessu stigi málsins.

Ég ætlaði fyrst og fremst í þessari umræðu, herra forseti, að ræða þau mál sem ég hef mest komið að í vinnu við þetta frumvarp á vettvangi utanríkismálanefndar, um þann kafla, VIII. kaflann, sem fjallar um meðferð utanríkismála. Ég get ekki látið hjá líða að koma samt inn á nokkur önnur atriði undir lok ræðu minnar. Það sem ég vil segja sérstaklega um skipan og meðferð utanríkismála er að ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur, eins og gert er í tillögum stjórnlagaráðs og hefur komið glögglega fram í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að fá inn í stjórnarskrá okkar sérstakan kafla um meðferð utanríkismála sem verða æ umfangsmeiri í samfélagi okkar og samskiptum okkar við umheiminn og eru vægast sagt fátækleg í gildandi stjórnarskrá. Ég tel að sú atrenna sem gerð hefur verið að því af hálfu stjórnlagaráðs og í áframhaldandi vinnu nefndarinnar hér á vettvangi Alþingis sé mjög góð og lofsverð. Ég er í öllum meginatriðum sammála því sem þar kemur fram og eins að sjálfsögðu þeirri umsögn sem meiri hluti utanríkismálanefndar veitti um þennan kafla. Þó hafa komið upp ýmis álitamál í þessu samhengi og ég hef talið að það væri þá eftirsóknarvert að sjá hvort hægt væri að mæta þeim athugasemdum sem komið hafa fram.

Ég hef til að mynda tekið eftir þeim sjónarmiðum sem bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa verið með að því er varðar 111. gr., sem lýtur að því að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal tiltekinna þátta ríkisvalds, skilyrt þó að það sé í þágu friðar, efnahagssamvinnu eða réttarvörslu, til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að eða ef um er að ræða alþjóðasamvinnu sem Ísland tekur þátt í, eins og segir í breytingartillögunni sem liggur fyrir í þessari umræðu. Þar hafa þau sjónarmið verið uppi, og reyndar líka í stjórnarflokkunum, að binda ætti heimildir til framsals af þessum toga við alþjóðastofnanir sem Ísland á aðild að en ekki til hvaða alþjóðasamvinnu sem er. Ég get tekið undir það sjónarmið og ég er reiðubúinn til að mæta þeim sjónarmiðum og standa að breytingartillögu í þá veru en því miður hefur skort á að stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, kæmu með uppbyggilegar tillögur frá eigin brjósti um það hvernig þeir vilja sjá þessum hlutum fyrir komið í stjórnarskránni.

Orka þeirra og tími hefur þvert á móti farið í að rakka niður þá vinnu sem unnin hefur verið hér á vettvangi Alþingis og fyrr í ferlinu. Talað er um að verið sé að keyra málið í gegn og að ekki sé samstaða um það. Það er augljóst að það getur ekki verið samstaða þegar menn koma ekki á uppbyggilegan hátt að borðinu og reyna þá að hafa áhrif á niðurstöðuna með tillögum sínum. Það er sjálfsagt að hlusta á tillögur annarra og fara yfir það hvort eitthvað er í þeim sem breið samstaða getur tekist um. Það veit maður ekki ef maður sér þær aldrei. Þannig að ég sakna þess.

Ég tel að þarna sé flötur á að vinna frekari breytingar sem enn breiðari samstaða gæti orðið um. Í 109. gr., um að ráðherra og ríkisstjórnin skuli upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um ákvarðanir áður en hún tekur ákvarðanir í mikilvægum utanríkismálum, kom upp það sjónarmið að þær aðstæður gætu verið uppi að ríkisstjórnin þyrfti að bregðast mjög skjótt við og gæti jafnvel á vettvangi þurft að taka ákvarðanir í mikilvægum utanríkismálum og hefði af þeim sökum ekki tök á að hafa samráð við utanríkismálanefnd. Í því efni hafði ég viðrað hugmyndir um að þarna mætti gera breytingar á orðalagi til að koma til móts við þau viðhorf með því að segja að ríkisstjórnin skuli leitast við eða að jafnaði hafa samráð við utanríkismálanefnd áður en hún tekur mikilvægar ákvarðanir. Þetta gæti mætt þeim sjónarmiðum sem til dæmis bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn voru með en einnig í þessu efni hafa ekki komið fram neinar beinar tillögur þar að lútandi. En ég hef viðrað þessi sjónarmið og hef svo sem ekki fengið viðbrögð við þeim úr þeim ranni, því miður. En þarna held ég að hægt sé að vinna með hlutina áfram og við eigum að gera það til að tryggja að við fáum góða umgjörð um meðferð utanríkismála í stjórnarskránni.

Virðulegur forseti. Ég vil víkja aðeins að öðru máli sem ég tel afar þýðingarmikið. Nú höfum við fylgst með því hér í umræðunni að uppi eru hugmyndir um að tryggja framhald þessarar vinnu inn á næsta kjörtímabil með þingsályktunartillögu og forustumenn stjórnmálaflokkanna hafa verið að ræða það sín á milli. Það kom mér á óvart að Framsóknarflokkurinn skyldi ekki vilja taka undir slíkt, að framhald þessarar vinnu inn á næsta kjörtímabil yrði alla vega tryggt með þingsályktunartillögu, heldur skilst mér að forusta Framsóknarflokksins hafi talað um að það ætti að gera með einhvers konar yfirlýsingu. Ég hlýt þá að vísa í nefndarálit frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem liggur fyrir í þessu máli, frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, en þar segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti ítrekar þá skoðun sína og vilja að til að ná sátt sé ráðlegt að fulltrúar allra flokka flytji þingsályktunartillögu fyrir þinglok sem tryggi áframhaldandi vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili.“

Ég hlýt að velta því fyrir mér: Hvers vegna vill þá ekki Framsóknarflokkurinn gera nákvæmlega það sem hann leggur til í nefndaráliti sínu og boðið hefur verið upp á af formönnum annarra flokka? Ég verð að segja að ég skil ekki alveg þessa afstöðu félaga minna í Framsóknarflokknum og af því að ég sé nú formann flokksins hér ekki langt undan þá væri fróðlegt að fá vitneskju um það hvort fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi verið úti á túni í þessu, hvort viðkomandi þingmaður hafi ekki haft samráð við forustuna eða hvort forustan geri ekkert með það sem fulltrúi flokksins í nefndinni leggur fram og liggur fyrir í prentuðu þingskjali, nánar tiltekið þingskjali 959, fyrir áhugasama. Þetta vildi ég segja um þetta mál.

Í lokin vildi ég aðeins víkja að máli sem ég tel mjög þýðingarmikið og það varðar auðlindir í þjóðareigu. Í mínum huga er ákaflega þýðingarmikið að sú tillaga sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, meiri hluti hennar, kom sér saman um varðandi auðlindaþáttinn rati inn í stjórnarskrána. Ég tel að það eigi að gerast á yfirstandandi þingi. Þess vegna, eins og kom fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, þingflokksformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fyrr í þessari umræðu, áskiljum við okkur allan rétt til að flytja sérstaka breytingartillögu hvað það atriði varðar og bjóðum að sjálfsögðu fleirum að taka þátt í því eftir því sem áhugi kann að vera fyrir hendi, að tillagan um auðlindagreinina, eins og hún kemur út úr nefndinni, fari inn í stjórnarskrána og það sé hluti af þeirri afgreiðslu sem þetta mál fær á yfirstandandi þingi.

Jafnvel þótt maður horfist í augu við að halda þurfi þessari vinnu áfram inn á næsta kjörtímabil og taka á fleiri álitamálum tel ég þetta gríðarlega þýðingarmikið. Sú tillaga sem nú barst í tilkynningu á fjölmiðlum frá félögum okkar í Framsóknarflokknum byggir nánast orðrétt á þeirri tillögu sem lá fyrir í svokallaðri auðlindanefnd árið 2000 en færa má rök fyrir því að þær formúleringar sem þar er að finna séu jafnvel enn verri en þær sem þrátt fyrir allt eru í gildandi stjórnarskrá. Þar segir á einum stað að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Þó megi veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi og svo segir, með leyfi forseta:

„Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.“

Hvað þýðir þetta? Er þetta ekki bara það að það eigi til að mynda að festa og geirnegla niður gildandi kvótakerfi í sjávarútvegi? Það er ekki hægt að skilja þessa setningu úr auðlindaskýrslunni frá árinu 2000 öðruvísi og þetta taka framsóknarmenn núna beint inn í tillögu sína sem þeir gera grein fyrir í dag. Það veldur mér miklum áhyggjum að þetta viðhorf komi úr röðum framsóknarmanna vegna þess að ég hef ekki heyrt þá tala með þessum hætti áður. Ég hlýt að draga þá ályktun að þetta sé einhver misskilningur, að nákvæmlega þessi setning hljóti að hafa ratað þarna inn fyrir einhvern misskilning hjá vinum mínum í Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: Alls ekki.) Þeir geta ekki átt við þetta ef þeir eru samvinnuflokkur og félagshyggjuflokkur. (Gripið fram í.) Það getur bara ekki verið.

Virðulegur forseti. Ég skora á þá að fara rækilega í saumana á því sem þeir settu frá sér í dag því að þarna hlýtur eitthvað að þurfa endurskoðunar við.