141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

afbrigði um dagskrármál.

[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það verður að játast eins og er að þingmönnum er nokkur vandi á höndum þar sem ljóst er að þetta mál sem allt snýst um er vitanlega komið í skrúfuna, eins og menn gjarnan segja. Mér sýnist að verið sé að gera tilraunir til þess að leiða málið til lykta með einhverjum hætti. Ég er ekki sáttur við þá vegferð sem stjórnarflokkarnir eru að fara í málinu, það er alveg ljóst. Við áttum okkur í rauninni ekki á því hvers vegna þarf að fara þessa leið, að taka mál inn með afbrigðum, þannig að að sumu leyti höfum við skilning á rökum þeirra sem eru á móti þessum afbrigðum. Að sama skapi hefur það tíðkast í þinginu að liðka til fyrir þingstörfum, þar af leiðandi munum við sitja hjá við þessi afbrigði. Með því erum við að lýsa óánægju okkar með það hvernig haldið hefur verið á þessu máli.