141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:39]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og um leið tillögu til þingsályktunar sem auk mín er lögð fram af hv. þingmönnum Katrínu Jakobsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni.

Það er fyrst til að taka að eins og þingheimi er kunnugt hefur stjórnarskrármálið verið hér til meðferðar langan tíma þessa kjörtímabils. Það ferli sem hófst með vinnu þjóðfundar, stjórnlaganefndar, starfi stjórnlagaráðs og tillögum þess og hélt síðan áfram með þjóðaratkvæðagreiðslu í haust, hefur síðan haldið áfram á þessu þingi með heildstæðu frumvarpi sem liggur fyrir þinginu og kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í endanlegri gerð á mánudaginn var með framhaldsnefndaráliti til 2. umr.

Ég vil ljúka sérstöku lofsorði á starf meiri hluta nefndarinnar við vinnuna að þessu máli. Það hefur verið mikið verk að taka utan um þann mikla fjölda athugasemda sem borist hefur. Leitað var álits Feneyjanefndarinnar og í starfi meiri hlutans hefur verið tekin afstaða til athugasemda sem og ábendinga þeirrar nefndar. Það er mjög mikilvægt að færi hafi gefist á því að ljúka vinnunni og koma henni í það horf að nú liggi fyrir þinginu heildstætt plagg, stjórnarskrá með skýringum, þar sem tillit hefur verið tekið til efnislegra athugasemda. Það er mjög mikilvægur áfangi og við náðum honum á mánudag.

Á þeim skamma tíma sem eftir lifir af þingstörfum er hins vegar ekki raunsætt að gera sér væntingar um að hægt sé að koma heildstæðri endurskoðun stjórnarskrárinnar í höfn. Það lifa fáir þingdagar eftir af þessu þingi og eins og ég rakti áðan er málið komið frá nefndinni í heild hér inn og 2. umr. um málið í þeirri mynd er því rétt að hefjast. Því hefur það orðið að ráði milli okkar flutningsmanna þessa frumvarps til stjórnarskipunarlaga og tillögu til þingsályktunar að gera tillögu um sérstakt bráðabirgðaákvæði við stjórnarskrána sem gerir ráð fyrir að unnt verði að breyta henni á næsta kjörtímabili þannig að tryggja megi að sú vinna sem hafin hefur verið við stjórnarskrárumbætur og liggur fyrir í heildstæðu frumvarpi haldi áfram þannig að við hættum ekki á það að málið dagi hér uppi í þinginu og því ljúki ekki á nokkurn hátt fyrir þinglausnir í vor.

Í tillögunni til þingsályktunar gerum við svo ráð fyrir því að tekið verði frekar utan um þetta ferli og skapaður rammi utan um það að sérstök nefnd geti tekið við málinu eins og það er núna, unnið áfram í því og skilað því í hendur nýs þings næstkomandi haust. Með því yrði tryggt að byggt yrði á þeim grunni sem lagður var af hálfu stjórnlagaráðs og hefur fengið stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur öll hér að virða þann þjóðarvilja sem þar kom fram, í þjóðaratkvæðagreiðslu, með skýrum hætti og að sú mikla vinna sem síðan hefur verið unnin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nýtist — að það skili sér áfram hvernig hugmyndirnar hafa þroskast og þróast í vinnu nefndarinnar við úrvinnslu athugasemda sem fram hafa komið frá sérfræðingum og frá Feneyjanefndinni — og frumvarpið verði lagt fyrir nýtt þing að afloknum kosningum.

Þessi tvö mál haldast í hendur á þann veg að við þurfum umgjörð utan um efnisþætti málsins eins og það er núna til að tryggja að það komist til efnislegrar afgreiðslu eftir þingkosningar. Við þurfum líka að tryggja að breytingarákvæði verði að veruleika þannig að það sé trúverðugt að hægt sé að finna umgjörð um stjórnarskrárbreytingar farveg á næsta kjörtímabili. Tillögur okkar miða því að þessu tvennu, að gerð verði breyting á stjórnarskipunarlögunum á þann veg að sérstakt bráðabirgðaákvæði bætist við sem gildi til 30. apríl 2017 og geri mögulegt að breyta stjórnarskránni án þess að þingkosningar séu á milli staðfestingar fyrra og seinna þings eins og nú er.

Þá mundi duga, og ákvæðið er í samræmi við þær tillögur sem lagt er upp með í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að þrír fimmtu hlutar þings og þrír fimmtu hlutar þjóðar þurfi að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og að sex til níu mánuðir líði á milli samþykktar þings og þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Það má auðvitað hafa ýmsar skoðanir á fyrirkomulagi breytingarákvæðis af þessum toga. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur ásamt öðrum lagt til aðra útgáfu sem okkur flutningsmönnum þykir heldur viðurhlutamikil, þ.e. að tveir þriðju hlutar þings þurfi að samþykkja stjórnarskrárbreytingu og að það séu þátttökuþröskuldar í þjóðaratkvæðagreiðslu því að þeir hafa almennt séð ekki gefist vel.

Við leggjum þessa hugmynd fram en það er síðan nefndarinnar að vinna þetta mál áfram til efnislegrar niðurstöðu. Að því er varðar umgjörðina um málið að öðru leyti, hina efnislegu umgjörð, gerum við ráð fyrir því að kjörin verði fimm manna nefnd á yfirstandandi þingi sem haldi áfram með þetta ferli stjórnarskipunarumbóta. Við rekjum sögu þeirra allt aftur til ársins 2009 þegar farið var af stað í þetta ferli að frumkvæði Framsóknarflokksins í upphafi árs 2009. Málið hefur síðan haldið áfram með þjóðfundi, starfi stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs og tillögur ráðsins til nýrrar stjórnarskrár 2011, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og þinglegri meðferð síðan. Við gerum ráð fyrir fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það verkefni að vinna málið áfram næstu mánuði og skila stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tillögum sínum fyrir 1. október 2013 með það að markmiði að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar geti verið lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 2014.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er bakgrunnurinn rakinn ítarlega en ég held að í tillögum þessum felist hugmynd að lausn á þeirri stöðu sem upp er komin í stjórnarskrármálinu, möguleg leið til þess að við getum sameinast um að tryggja að þjóðarviljinn sem tjáður hefur verið í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili, og sá ríki vilji sem sést í öllum skoðanakönnunum meðal þjóðarinnar um að unnið verði áfram með málið, fái farveg en jafnframt að við sköpum umgjörð fyrir það að hægt sé að styrkja og efla samstöðu um niðurstöðuna eins og kostur er. Til þess stendur vilji okkar, flutningsmanna þessa máls, og það verður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að vinna frekar úr þessum tillögum þegar þær ganga svo til nefndar.