141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi mörk vegna þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum vegna breytinga á stjórnarskrá. Það er einfaldlega saga þeirra landa sem hafa þátttökuþröskulda vegna breytinga á stjórnarskrá að þeir hafa ekki gefist vel. Það er almennt viðurkennt af sérfræðingum í stjórnskipunarrétti og líka sérfræðingum í stjórnmálafræði sem hafa verið að kanna þetta mál, ég nefni sérstaklega dr. Gunnar Helga Kristinsson sem kom fyrir þingnefndir í haust og fjallaði mikið um þetta, að þátttökuþröskuldar séu orðnir víkjandi í stjórnskipunarrétti í hinum vestræna heimi vegna þess að þeir hafa ekki gefist vel og vegna þess að þá eru taldir saman þeir sem sitja heima og þeir sem eru á móti, en það er ekki endilega afstaða þeirra sem sitja heima að vera á móti. Ég tel þess vegna þá útfærslu sem valin hefur verið af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eðlilegri. Hún byggir á því að menn geti ekki fellt tillögu með því að sitja heima og þar með er beinlínis hvatt til jákvæðrar þátttöku í atkvæðagreiðslunni þannig að fólk þurfi að koma og taka efnislega afstöðu. Ég tel það miklu skipta að við búum okkur ekki til þannig hindranir að við séum í reynd að gera stjórnarskrárbreytingar illkleifar eða lítt mögulegar. Við eigum að læra af reynslu annarra þjóða í því efni.

Að síðustu varðandi hverjir flutningsmenn eru þá ræddum við það á fundi formanna allra flokka í gær að við værum að undirbúa tillögu af þessum toga, buðum formönnum annarra flokka að vera með og þeir kusu að gera það ekki að sinni, en þetta mál er flutt í friði við formenn annarra flokka á Alþingi (Forseti hringir.) og þeir vita af flutningi þess. Ég vænti því uppbyggilegra (Forseti hringir.) og málefnalegra viðbragða til að vinna að málinu áfram í samræmi við það sem formenn flestra flokka hafa sagt að undanförnu, að (Forseti hringir.) mikilvægt sé að finna jákvæðan farveg fyrir það inn í næsta þing.