141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir að fara yfir frumvarpið og kynna okkur það. Það vakna ýmsar spurningar þegar maður rennir í gegnum þetta og hlustar á þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Maður veltir því fyrir sér þegar talað er um í greinargerð að frumvarpið sé flutt í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt að þegar breytingartillögur voru ræddar, eins og sást hér fyrr í dag, þá virtist renna æði á nokkra þingmenn Vinstri grænna yfir ákveðinni tillögu sem sett var fram í nákvæmlega sama tilgangi, að reyna að ná fram sátt og ljúka málinu með farsælum hætti vegna þess að ekki hefur öllum þótt þau ákvæði sem eru í þeim drögum sem hafa legið frammi beint fýsileg.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig sé hægt að líta á það sem jákvætt útspil þegar viðbrögð stjórnarþingmanna eru þau sem við sáum hér í dag, þegar lagðar eru fram jákvæðar breytingartillögur sem er svo spólað yfir, eins og óhætt er að segja, af öllu afli án þess að leggja neitt málefnalegt til. Ég fæ ekki séð að það sé sérstaklega mikill sáttahugur í þessu húsi.

Mig langar líka að velta því upp við hv. þingmann hvort það kunni að vera að ekki sé raunhæft að ná í gegn þeirri tillögu sem hér kom fram, þar sem í henni felst töluverð breyting þó að hún sé til bráðabirgða, vegna þess að ljóst er að menn hafa ýmsar skoðanir á þessu breytingarákvæði.

Ég ítreka að mér finnst sérstakt, og ég mun fara betur yfir það í andsvari á eftir og spyrja hv. þingmann betur út í það, að ekki verði krafa um lágmarksþátttöku. (Forseti hringir.)

Ég hef áhyggjur af því að það sé ekkert sérstaklega friðvænlegt hér til að afgreiða þessa tillögu frekar en aðrar.