141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur legið lengi fyrir hvaða breytingar og hvers konar vinnu Framsóknarflokkurinn væri til í að fara í varðandi stjórnarskrána. Það lá fyrir fyrir jól og var ítrekað með sérstakri yfirlýsingu 21. janúar síðastliðinn að það væru sérstaklega þrjú atriði sem menn væru til í að skoða. Það er að mínu viti útilokað á þeim tíma sem eftir er að allt það geti gengið eftir.

Ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum með það að núna á elleftu stundu skuli menn reyna að klastra einhverju í gegnum þingið. Við verðum bara að sjá hvernig það fer. Eins og ég tók fram áðan þá finnst mér við hafa fjarlægst það eftir því sem liðið hefur á daginn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og flutningsmann þessarar tillögu, af því að í skýringum er rætt um að ekki sé eðlilegt ef meiri hluti kosningabærra manna sitji heima (Forseti hringir.) og geti þar af leiðandi ráðið úrslitum um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu: Er eitthvað lýðræðislegra að draga fólk á kjörstað til þess að sýna það sem því býr í brjósti?