141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í andsvari mínu áðan við ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar er stuttur tími liðinn síðan þessu þingmáli var dreift þannig að segja má að það sem kemur fram af minni hálfu í 1. umr. getur ekki orðið annað en fyrstu viðbrögð.

Ég nefndi áðan við hv. þingmann að mér þætti sérkennilegt að leggja fram tillögu um einhvers konar bráðabirgðabreytingarákvæði. Ég hefði haldið að það væri strax betri nálgun ef menn reyndu að ganga frá málinu þannig að þeir væru sáttir við þá reglu sem væri tekin upp varðandi stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni, ef menn væru komnir að einhverri niðurstöðu sem þeir væru sáttir við öðruvísi en til bráðabirgða. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að sú regla sem menn ætla sér að nota við næstu breytingar á stjórnarskrá sé regla sem þeir eru sáttir við sem framtíðarfyrirkomulag. Ef hugmyndin er með einhverjum hætti sú að léttara verði að breyta stjórnarskrá í næstu umferð en einhvern tímann síðar í framtíðinni er ég ekki hrifinn af því, svo það komi fram.

Ég fagna því hins vegar sem kemur fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar að hann sé út af fyrir sig tilbúinn til þess að ræða útfærslur og frekari athuganir á málinu og allt gott um það að segja. Mér fannst gott að heyra að hann taldi ekki allt í gadda slegið eða niðurnjörvað með einhverjum hætti vegna þess að þau atriði sem koma fram í frumvarpinu eru þannig að menn geta út af fyrir sig verið þeirrar skoðunar að tilefni geti verið til að breyta breytingarákvæði stjórnarskrár en ekki verið sáttir við það sem liggur fyrir.

Meginatriðin í þeirri grein eru auðvitað ekki alveg ný vegna þess að þau eiga sér samhljóm í tillögu sem kom frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í síðustu viku og var dreift á mánudaginn. Þar er meginviðmiðið að annars vegar þurfi 3/5 þings og hins vegar 3/5 hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu til að stjórnarskrárbreyting nái fram að ganga. Til að byrja á jákvæðum nótum vil ég segja að auðvitað er það jákvæðara að þannig sé gert ráð fyrir að einhver aukinn meiri hluti sé fyrir breytingum af því tagi í stað þess að eingöngu sé gert ráð fyrir einföldum meiri hluta.

Það má velta fyrir sér hvort hlutfallið ætti að vera 2/3 eða 3/5, 66,6% eða 60%. Menn geta velt því fyrir sér og engin endanleg vísindaleg niðurstaða til að komast að því, það hlýtur að vera einhvers konar ákvörðun hvaða hlutfall menn vilja styðjast við í því sambandi. Eins og hefur komið fram fyrr í dag er það atriði sem ég hefði mestar áhyggjur af við tillöguna einfaldlega það sem lýtur að því að ekki er nein krafa um þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu eða lágmarksstuðning við þá niðurstöðu sem liggur fyrir.

Eins og hv. þingmenn þekkja, og ég nefndi í ræðu fyrr í dag, er auðvitað hægt að fara tvær leiðir í sambandi við svona. Hægt er að vera með beinan þátttökuþröskuld þar sem gerð er krafa um að tiltekið hlutfall taki þátt í atkvæðagreiðslunni til að hún sé gild eða hafi bindandi áhrif. Margir stjórnmálafræðingar og kosningaspekúlantar eru þeirrar skoðunar að það sé óheppilegt vegna þess að það geti virkað sem hvatning fyrir menn til að sitja heima, jafnvel þótt þeir hafi sterkar skoðanir á málinu, til að ná niður kjörsókn og því sé á margan hátt betra að miða við að tiltekið hlutfall segi já til að niðurstaðan hafi bindandi áhrif.

Það eru þekktar leiðir í því sambandi. Ein leið er sú sem kemur fram í frumvarpi hv. þm. Péturs H. Blöndals og fleiri. Önnur leið er fyrir hendi til dæmis í dönsku stjórnarskránni þar sem er gert ráð fyrir tilteknu samþykkishlutfalli ef svo má segja. Ég tel að við ættum að íhuga slíkar leiðir vel og væri til mikilla bóta að mínu mati að setja inn í ákvæði af því tagi.

Af hverju segi ég það? Ég er þeirrar skoðunar, og held að það sé nokkuð almenn skoðun, að stjórnarskrárbreytingar eigi ekki að vera of auðveldar, það eigi að vera hægt að gera þá kröfu að tiltölulega víðtækur stuðningur sé við stjórnarskrárbreytingar og tiltölulega góð samstaða um breytingar sem eru gerðar á stjórnarskrá. Ég held að það sé allt í lagi að það endurspeglist í því ákvæði sem felur í sér reglu um breytingar á stjórnarskrá. Með því að setja kröfu til dæmis um að tiltekið hlutfall þurfi að segja já við stjórnarskrárbreytingum til að þær nái fram að ganga í þjóðaratkvæðagreiðslu erum við einfaldlega að gera þá kröfu að virkur stuðningur komi fram við breytingar sem eru lagðar til. Ég segi: Er ósanngjarnt að gera slíka kröfu? Má ekki segja að það geti komið í veg fyrir að stjórnarskrárbreytingar séu gerðar að tilefnislitlu? Það þurfi ákveðið hlutfall, sem menn geta velt fyrir sér hvort eigi að vera 50%, 40% eða einhver önnur tala, að segja já við stjórnarskrárbreytingum til að þær nái fram að ganga. Ég tel ekki ósanngjarnt eða óskynsamlegt að gera slíka kröfu vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að mögulegt verði að vera að breyta stjórnarskrá en það á ekki að vera of auðvelt. Það verða að vera ákveðnar tæknilegar hindranir, getum við sagt, gagnvart stjórnarskrárbreytingum sem gera það að verkum að þær nái ekki fram að ganga nema um þær sé talsvert víðtæk sátt. Það leiðir auðvitað hugann að núgildandi stjórnarskrá.

Núgildandi stjórnarskrá er þannig uppsett að til þess að stjórnarskrárbreyting nái fram að ganga þarf þing að samþykkja stjórnarskrárbreytingu, reyndar bara með einföldum meiri hluta. Þá þarf að efna til kosninga þegar eftir að stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt og nýtt þing þarf síðan að samþykkja stjórnarskrána eða stjórnarskrárfrumvarpið óbreytt frá fyrra þingi svo það taki gildi sem stjórnarskipunarlög.

Hvað felst í því? Í raun og veru felast í því tvær hindranir. Önnur er ákveðin tímafrestunarhindrun sem felur í sér að það er alltaf ákveðinn a.m.k. vikufjöldi ef ekki mánaðafjöldi sem líður frá því að stjórnarskrárfrumvarp er afgreitt í fyrra sinn þar til það er afgreitt endanlega og spornar með vissum hætti gegn því að gerðar séu bráðræðislegar stjórnarskrárbreytingar. Hinn þröskuldurinn er auðvitað fólginn í því að gerð er ákveðin samstöðukrafa. Samstöðukrafan felst í því að þegar menn samþykkja stjórnarskrárfrumvarp í fyrra sinnið þurfa þeir eiginlega að ganga þannig frá málum að líklegt sé a.m.k. að næsta þing samþykki líka breytinguna. Hvernig ganga menn þannig frá því að líklegt sé að það verði niðurstaðan? Með því að ná sem víðtækastri samstöðu milli pólitískra sjónarmiða og pólitískra afla um þá niðurstöðu sem verður ofan á. Það er raunverulega sú reynsla sem við höfum fyrir augunum hér á landi. Þær stjórnarskrárbreytingar sem hafa verið samþykktar á lýðveldistímanum hafa að jafnaði verið gerðar í allvíðtækri sátt. Það er dæmi um það frá 1959 að einn stjórnmálaflokkur leggist alfarið gegn breytingu sem er gerð en þá var um að ræða samstöðu allra hinna. Í hinum tilvikunum hefur samstaðan verið miklu víðtækari eða jafnvel algjör. Það hefur gerst sjö sinnum á lýðveldistímanum af því að stjórnarskránni hefur verið breytt verulega frá 1944, í veigamiklum atriðum og í sjö skipti þannig að menn hafa ákveðna reynslu af því.

Hvernig hafa menn unnið að þeim stjórnarskrárbreytingum? Það hefur að jafnaði verið gert með því að byggja brú milli manna í þinginu um hvaða breytingar skyldi gera og hvernig þær skyldu útfærðar. Það hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að nýkjörið þing hefur alltaf samþykkt þær stjórnarskrárbreytingar sem hafa verið afgreiddar á fyrra þingi. Það hefur gerst sjö sinnum á lýðveldistímanum.

Núgildandi ákvæði 79. gr. hefur að því leyti reynst ágætlega að mínu mati. Það hefur að sönnu verið ákveðinn hemill á bráðræðislegar stjórnarskrárbreytingar. Það hefur að sönnu verið til þess fallið að stuðla að því að um þær breytingar sem hafa verið gerðar hefur náðst víðtæk sátt og að því leyti reynst ágætlega.

Menn hafa bent á að einn galli væri á því fyrirkomulagi sem við búum við í dag, þ.e. að aldrei sé beinlínis efnt til atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar um stjórnarskrárbreytingar. Ég get tekið undir það. Ég get tekið undir að það gæti verið ráð að bæta þjóðaratkvæðagreiðslu við í því sambandi. Ég hef í sjálfu sér verið nokkuð opinn fyrir því að breyta því ákvæði og raunar umfram ýmis önnur í stjórnarskránni. Ég tel hins vegar, hæstv. forseti, að það sé rétt að gera varfærnislega. Það slær mig þannig að sú hugmynd sem var lögð fram á þingi fyrr í dag sé a.m.k. haldin þeim annmarka að ekki sé gert ráð fyrir því að tiltekið hlutfall kosningabærra manna í landinu taki þátt í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem þar er vísað til. Ég sé það strax sem galla í því.

Hæstv. forseti. Í lok ræðu minnar verð ég reyndar að taka fram að í ljósi reynslu undangenginna ára er ég kannski orðinn íhaldssamari gagnvart breytingum á 79. gr. en ég var fyrir nokkrum árum vegna þess að stundum á undanförnum fjórum árum hefur myndast sú stemning í þinginu að ástæða hefur verið til að hafa áhyggjur af því að farið væri í breytingar á stjórnarskrá í nokkru fljótræði. Í ljósi þess tek ég öllum tillögum í þá veru með nokkrum fyrirvara þótt ég útiloki ekkert í því sambandi ef tryggt er að settir séu eðlilegir þröskuldar gagnvart stjórnarskrárbreytingum svo við náum því marki að vissulega sé hægt að breyta stjórnarskrá. Það leggst enginn gegn því, það þarf að vera hægt að breyta stjórnarskránni, en það verður að gæta þess að það sé gert að vel yfirlögðu ráði og helst í sem allra víðtækustu samstarfi ólíkra afla í þjóðfélaginu.