141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ákveðinn munur. Ég held að sá ákveðni munur birtist kannski skýrast í þátttökuþröskuldinum eða samþykkisþröskuldinum ef við getum orðað það svo. Ég játa að tillagan sem hv. þingmaður vísar til og kom fram fyrir kosningar 2009 hefur það innihald sem er vísað til. Þar var að mínu mati, sérstaklega þegar ég horfi til baka, kannski farin allt of varfærin eða allt of væg leið varðandi hvert hlutfallið ætti að vera, þ.e. 25%. Það er afar væg leið.

Hæstv. forseti. Ég tek fram að engin aðferð í því sambandi er hafin yfir vafa eða ágreining. Það er ekki til hið eina rétta svar við því hvernig breyta á stjórnarskrá. Vissulega getum við rætt hvernig útfærslan á að vera en ég tel að það verði að skoða heildstætt svo tryggt sé að ferli stjórnarskrárbreytinga taki ákveðinn tíma og að einkenni eða innihald sé í ákvæðunum sem tryggja að menn neyðist einfaldlega til að leita sem víðtækastrar samstöðu.

Svo er það útfærsluatriði nákvæmlega hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu. Það er útfærsluatriði en ekki aðalmál. Aðalmálið er að ekki sé hægt að fara í stjórnarskrárbreytingar í miklu fljótræði og að í ákvæðinu séu hvatar sem leiða til þess að leitað sé sem víðtækastrar samstöðu.