141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður má auðvitað túlka orð mín hvernig sem hún vill og hún má túlka það þannig að ég hafi verið að gera mikið úr ágreiningi. Ég var hins vegar að vekja athygli á þeim atriðum sem ég er ekki sáttur við í þessu og tel að betur mætti fara enda er tilgangur umræðunnar í þinginu væntanlega að fá fram mismunandi sjónarmið um það. Hins vegar hygg ég að hv. þingmaður hafi líka heyrt að ég útilokaði ekkert um að hægt væri að ræða hlutina á vettvangi nefndarinnar, um mismunandi útfærslur. Ég hygg að hv. þingmaður hafi líka heyrt að ég lagði höfuðáherslu á tvo þætti, annars vegar að það væri einhver tímaseinkunareinkenni eða element í tillögunum og hins vegar einhver atriði sem gerðu kröfu um víðtæka samstöðu, annað væri útfærsluatriði. Eins og hv. þingmaður hefur væntanlega heyrt hef ég ekki útilokað eitt né neitt í því sambandi.

Ég vildi hins vegar taka fram að reynsla undanfarinna ára hefur kannski gert mig jafnvel enn þá íhaldssamari í þeim efnum en verið hefur vegna þess að ég hef séð að alls konar meiri hlutar geta myndast á þingi, stundum tímabundið og stundum varanlega, um alls konar hugmyndir sem mér finnast svolítið sérkennilegar. Ég verð að játa að ég er hikandi gagnvart öllum breytingum í þeim efnum þótt ég útiloki ekkert.

Ég tek aftur undir að við sjálfstæðismenn fluttum þessa tillögu í atburðarásinni sem átti sér stað vorið 2009. Við tókum reyndar líka þátt í því, eins og fulltrúar allra flokka, að semja tillögu í sömu átt vorið 2007. (Forseti hringir.) Tillagan 2009 var endurgerð þeirrar tillögu. Eftir því sem ég velti málunum meira fyrir mér er ég í raun og veru hrifnastur af þeirri aðferð sem er í stjórnarskrá Danmerkur og hv. þingmaður (Forseti hringir.) þekkir.