141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[20:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Sem einn af flutningsmönnum þessa máls vil ég gjarnan nefna nokkur atriði við 1. umr. Eins og komið hefur fram í umræðunni er verið að leggja fram tiltölulega einfalt frumvarp sem snýst um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar og að við breytingarákvæðið sem fyrir er bætist nýtt ákvæði þar sem gert er ráð fyrir fram til 30. apríl 2017 að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að Alþingi geti samþykkt frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með 60% greiddra atkvæða, þ.e. 3/5, og síðan skuli það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Settur er sá hemill á að sú atkvæðagreiðsla fari fram í fyrsta lagi sex mánuðum eftir að Alþingi hefur afgreitt málið og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Hugsunin á bak við það er augljóslega sú að þjóðinni gefist þá kostur á að vega og meta þær breytingar sem fyrir eru lagðar. Síðan er vísað til þess að frumvarpið sé þá samþykkt aftur með 60% atkvæða, 3/5 hlutum, í þjóðaratkvæðagreiðslunni og skuli þá teljast gild stjórnarskipunarlög.

Hér er lögð til ein breyting á gildandi stjórnarskrá. Sú breytingartillaga byggir á tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hver er hugsunin á bak við þessa tillögu? Jú, sú að þeirri vinnu sem hefur farið fram í nokkur ár og hefur verið mikil verði framhaldið með tilteknum hætti því að þetta er heildarendurskoðun á stjórnarskrá, þetta er ólíkt fyrri breytingum á stjórnarskrá sem hafa snúist um einstaka hluta stjórnarskrárinnar. Hér er um að ræða heildarendurskoðun og það er eðlilegt að sá kostur sé uppi að þeirri vinnu sem unnin hefur verið og liggur fyrir sé gefinn sá tími að hægt sé að ljúka fyrr en að fjórum árum liðnum eins og raunin yrði ef eingöngu væri um núgildandi breytingarákvæði að ræða, þ.e. að loknu næsta kjörtímabili.

Eins og ég sagði hefur mikil vinna verið lögð í þetta mál og stundum þegar við ræðum málið á þingi finnst mér gleymast öll sú vinna sem lögð hefur verið í það. Þegar við ræðum þá vinnu virðist stundum eingöngu átt við umræður í þingsal, en ég leyfi mér að fullyrða að sú umræða sem hefur farið fram um stjórnarskrána, sé ekki hér á þingi heldur úti í samfélaginu, til að mynda í fjölmiðlum, meðal þjóðarinnar, á þjóðfundi, í gegnum kosninguna til stjórnlagaþingsins, í kosningunni sem fór fram um tillögur ráðsins þar sem mikil og góð kynning fór fram á þeim tillögum, hvort sem um var að ræða auðlindaákvæðið, þjóðkirkjuákvæðið, beina lýðræðið eða persónukjörið. Mér er til efs að jafnmikil umræða hafi farið fram meðal almennings í landinu um stjórnarskrárbreytingar áður og hefur verið undanfarin missiri. Sú umræða skiptir mjög miklu máli.

Hugsunin hér, eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni sem einnig var lögð fram í dag og fylgir þessu frumvarpi, er hins vegar sú að við gefum okkur bæði meiri tíma til umræðu á þinginu um þau drög sem liggja fyrir og þjóðinni áframhaldandi tækifæri til umræðu. Málið hefur tekið talsverðum breytingum sem liggja fyrir í þessu ítarlega framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er vísað til þess að það skiptir miklu máli að gefa okkur líka tíma, bæði innan þings og utan, til að leyfa þessari umræðu að þroskast.

Mér finnst tillagan um breytingarákvæðið bera vitni um þá vinnu sem þegar hefur farið fram. Þarna er þingið að hleypa þjóðinni að ákvörðuninni. Rétt eins og gert hefur verið hingað til í þessu ferli er hugsunin sú að með því að breyta eingöngu þessu ákvæði opnum við fyrir aðgang þjóðarinnar að því að ljúka þeim breytingum með því að breyta breytingarákvæðinu þannig að þingið samþykki og síðar þjóðin. Mér finnst þessi tillaga mjög í þeim anda sem öll þessi vinna hefur verið, sem snýst um að þó að Alþingi sé sá aðili sem fari með stjórnarskrána, lög okkar um stjórnarskrársamþykkt, er þetta stjórnarskrá allrar þjóðarinnar og á að vera það. Ég tel að öll sú umræða sem hefur sprottið upp sé skapandi og ég er viss um að allir hv. þingmenn hafi til að mynda mætt þegar gildandi stjórnarskrá var sungin í Hafnarborg. Ég er viss um að það gaf mörgum mjög nýja sýn á það ágæta rit. Þetta hefur verið uppspretta umræðu í mjög mörgum lögum samfélagsins og við ættum að fagna því. Mér finnst að hv. þingmenn ættu að fagna því að almenningur í landinu sýni þessu máli þann áhuga sem raun ber vitni.

Hér hefur verið rætt talsvert um þetta mál og mér fannst orð þess hv. þingmanns sem síðastur talaði, hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, gefa til kynna að hv. þingmenn séu reiðubúnir að skoða þessa tillögu með opnum huga og nálgast hana af jákvæðni. Ég tel að koma megi til móts við þær áhyggjur sem hér hafa verið viðraðar, bæði hjá honum og öðrum hv. þingmönnum sem hafa talað, af því að nauðsynlegt sé að tryggja góða þátttöku í atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Ég tel að það megi í sjálfu sér tryggja án þess að setja einhver sérstök mörk á þátttöku. Eins og farið er yfir í greinargerðinni með frumvarpinu er hægt að stoppa stjórnarskrárbreytingar með því að mæta ekki á kjörstað og stöðva þannig í raun og veru framgang lýðræðisins. Ef þátttökuþröskuldurinn er of hár er hægt að ógilda atkvæðagreiðslu með því að mæta ekki í stað þess að mæta og taka afstöðu. Einhverjir gætu sagt: Þá er verið að fella frumvarpið með því að mæta ekki. Það er þó neikvæð nálgun á lýðræðislegt ferli sem svona atkvæðagreiðsla er væntanlega. Ég hefði talið það varasamt en hins vegar er hægur vandi að tryggja þátttöku með því til að mynda að láta slíka atkvæðagreiðslu fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Við á Íslandi eigum því láni að fagna að þátttaka í almennum kosningum er mikil, 80–90%, og við getum hæglega látið þessa atkvæðagreiðslu fara fram samhliða slíkum almennum kosningum og þar með tryggt þátttöku sem ætti að gefa raunsanna mynd af því hvað þjóðin vill.

Ég tel þetta frumvarp tilraun til að tryggja áframhaldandi vinnu þessa máls án þess að setja óbærilega pressu á það. Í ljósi þess hversu fáir þingdagar eru eftir tel ég að ef menn nálgast þetta með málefnalegum hætti sé hæglega unnt að vinna málið áfram með því að samþykkja breytingar á breytingarákvæðinu. Þá þarf ekki að framlengja þessa vinnu um heilt kjörtímabil í viðbót heldur er hægt að halda henni áfram óslitið og ljúka henni til að mynda að loknu árinu. Ég tel að breytingarákvæðið sem hér er lagt til endurspegli að einhverju leyti anda ferlisins með því að hleypa þjóðinni að ákvörðuninni. Ég tel að þetta breytingarákvæði breyti því ekki að það verður ekki létt verk að breyta stjórnarskrá. Það þarf ýmislegt til að 60% þingmanna samþykki breytingar. Það bil sem er gefið, sá tími sem er látinn líða, kallar á að það er tími til að ræða málið meðal almennings og síðan að 60% þeirra sem greiða atkvæði þurfi að samþykkja tel ég líka að sé ekki létt verk. Það þarf umtalsverða sátt til að ná breytingum í gegn.

Ég tel þetta breytingarákvæði endurspegla í senn ferlið en vera líka markvisst teikn um að vinnunni verði haldið áfram. Það ætti að vera hægt miðað við þær yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar um vilja manna til að vinna að breytingum á stjórnarskrá. Það ætti því að vera fullt tilefni til þess að samþykkja frumvarpið. Það er eðlilegt, eins og hér hefur verið nefnt, að þetta verði síðan skoðað í nefnd, bæði hlutföllin og tímabilið sem hér er gefið, en ég tel að það ætti ekki endilega að hamla málinu.

Síðan vil ég segja að lokum að mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að fólk horfist í augu við það að sú vinna sem unnin hefur verið skiptir verulegu máli. Ég tel hana mjög merkilega ef við skoðum söguna, hvernig stjórnarskrárbreytingar hafa hingað til verið gerðar. Aðkoma þjóðarinnar er mjög merkileg og ég tel mjög mikilvægt að Alþingi haldi áfram og ljúki þessu ferli með einhverjum hætti þó að það verði ekki fyrr en á næsta kjörtímabili. Í þessum efnum tel ég enga ástæðu til að við flýtum okkur um of en ég tel heldur enga ástæðu til að tefja málið lengur en þarf. Það skiptir máli að umræðan fái að þroskast eins og ég sagði áðan en hún hefur hins vegar, held ég, aldrei verið meiri um stjórnarskrá landsins meðal almennings í landinu.