141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hún kom víða við.

Mig langar til að spyrja hana: Telur hún að vinnubrögðin við frumvarpið sem var eiginlega saltað í dag hafi verið góð? Málið kom inn til þingsins í júlí 2011. Það var ekki lagt fram sem frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr en í nóvember 2012, nánast einu og hálfu ári eftir að það barst þinginu. Það hefði mátt vinna alveg helling á þeim tíma.

Síðan er spurningin hvort nefndin hafi unnið nægilega vel því að hún flytur frumvarp og kemur svo með tvær breytingartillögur við eigið frumvarp. Það segir mér að hún hafi ekki unnið málið nægilega vel, alls ekki — alls ekki pólitískt og alls ekki í sátt við aðra eins og stjórnarandstöðu.

Fyrsta spurningin er sem sagt: Telur hæstv. ráðherra að þetta hafi verið góð vinnubrögð, gott verkskipulag o.s.frv.?

Ég flutti í þrígang frumvarp um breytingar á 79. gr. til að þjóðin gæti greitt bindandi atkvæði um stjórnarskrána sína. Ég er búinn að benda á það aftur og aftur. Núna kemur fram einhvers konar útfærsla á þeirri hugmynd en hún er til bráðabirgða, sem ég skil ekki af hverju þarf að vera, og hún er með þeim annmarka að mjög lítill hluti þjóðarinnar gæti samþykkt stjórnarskrána.

Auk þess vil ég spyrja hv. þingmann: Það eru þrír flutningsmenn aðrir að þessu frumvarpi, hv. formenn Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Var rætt við aðra formenn um að vera með í þessu og fengu þeir að vera með í því að móta þessar hugmyndir?