141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns þá var formönnum annarra flokka á þingi boðið að taka þátt í þessari vinnu. Ég og hv. þingmenn Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson kynntum þær hugmyndir að við vildum leggja fram frumvarp um breytingu á breytingarákvæði og buðum öðrum hv. þingmönnum, formönnum annarra flokka að taka þátt í þeirri vinnu með okkur en þeir kusu að gera það ekki og kusu fremur að ræða málið annars vegar hér og hins vegar á vettvangi þingnefndar. Formenn annarra flokka höfðu því full tækifæri til að taka þátt í mótun málsins. Það kom alveg skýrt fram hjá okkur að við værum reiðubúin að horfa á ólíkar útfærslur á þessu máli þannig að það sé sagt.

Hv. þingmaður nefnir hvort mér finnist þetta góð vinnubrögð. Í raun tel ég ræðu mína hér áðan hafa snúist um þau nýstárlegu vinnubrögð sem ég held að eigi eftir að hafa áhrif til framtíðar, að hleypa þjóðinni í auknum mæli að máli áður en það er fullmótað og lagt fram, eins og var gert með þjóðfundi, með vinnu stjórnlagaráðs og síðar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um bæði tillögurnar í heild og einstök atriði. Þetta eru vinnubrögð sem ég held að skipti verulegu máli í því, og það var í raun og veru meginpunktur þess sem ég sagði hér áðan, að íslenska þjóðin er orðin meðvitaðri um gildandi stjórnarskrá og hin nýju stjórnarskrárdrög sem nú liggja fyrir en hún hefur nokkru sinni verið. Ég held að það sé mjög jákvætt því að stjórnarskráin á alls ekki að vera einkamál hv. þingmanna og lögspekinga. Hún á að vera skjal þjóðarinnar allrar og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um það. Ég spyr því á móti: Er hv. þingmaður ekki sammála því að það hafi verið jákvætt að draga þjóðina að með þessum hætti?