141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svörin svo langt sem þau ná. Varðandi það að þjóðin greiði atkvæði með eða taki þátt í þessari vinnu eftir að stjórnlagaráð skilaði plaggi sínu inn til þingsins, þá var það á höndum þingsins og þingið og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd átti að skipuleggja vinnuna. Það gekk ekki betur en þetta. Ég er ekki sammála að þetta hafi verið góð vinnubrögð, ég tel að þau hafi verið mjög slæm.

Meðan stjórnlagaráð var með málið í sínum höndum vann það mjög hratt og á mjög stuttum tíma mikla vinnu. Það sem ég vildi gera athugasemd við var það sem hæstv. ráðherra sagði um þá sem ekki mæta til kosninga og hæstv. ráðherra sagði að þjóðin væri miklu meðvitaðri um það núna. Samt þora menn ekki að treysta því að mætt verði til kosninga. Samt þora menn ekki að hafa háa þröskulda eins og þann að helmingur þjóðarinnar skuli greiða atkvæði með stjórnarskrárbreytingu. Af hverju ekki? Ef þjóðin hefur svona ógurlegan nýfenginn áhuga á stjórnarskránni, af hverju treysta menn ekki að hún mæti? Af hverju að tengja þetta við sveitarstjórnarkosningar? Er málið ekki bara það að menn vita að þjóðin hefur ekki svo mikinn áhuga á þessu? Er það ekki vandamálið? Þess vegna eru menn með ákvæði um að einungis 60% þeirra sem mæta á kjörstað þurfi að greiða atkvæði með breytingu. Það gæti verið mjög lítill hluti þjóðarinnar. Mér finnst menn ekki trúa því að þjóðin muni mæta.

Ég er ekki sammála um menn sem ekki mæta á kjörstað. Þeir gætu alveg eins mætt á kjörstað og greitt atkvæði gegn málinu og þá væri það alveg kristaltært hvað þeir hefðu í hyggju og hvaða skoðun þeir hafa.