141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við nálguðumst öll mál með þeim hætti að öllu sé hægt að breyta á næsta þingi mundum við kannski aldrei leggja fram nokkurt einasta frumvarp eða nokkra einustu tillögu, því að öllu er jú hægt að breyta, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni.

Hugmyndin á bak við það að leggja fram þetta frumvarp og þessa þingsályktunartillögu er einmitt atlaga að því að skapa ákveðna sátt um feril máls sem ég sé ekki, út frá fyrri orðum hv. þingmanna bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að ætti að vera útilokað að skapa sátt um. Ef við nálgumst málin með lausnamiðuðum hætti, sem ég hefði nú talið að ætti að vera kappsmál okkar hér á Alþingi, tel ég að það ætti að vera hægt út frá þeim orðum sem hér hafa fallið um að menn séu mjög viljugir til þess að ljúka endurskoðun stjórnarskrár.

Hins vegar geri ég athugasemd við það þegar hv. þingmaður ræðir um breytingarákvæðið sem hjáleið. Hjáleið gefur til kynna, eins og þekking mín á íslensku er, að það sé einhver hálfgerð ófæruleið og ekki eftir hinni beinu braut. Hjáleiðin er eitthvað sem við förum þegar við komumst ekki hina beinu braut. Ég er algjörlega ósammála þeirri túlkun.

Sú leið sem hér er lögð til og er breyting á gildandi breytingarákvæði, sem felur í sér samþykki tveggja þinga, er samþykki 3/5 þingsins og 3/5 þjóðarinnar. Það að vísa máli til þjóðarinnar getur ekki í mínum huga verið hjáleið að því að samþykkja mál.