141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af síðustu orðum hæstv. ráðherra ætla ég ekki að deila við hana sem íslenskufræðing um túlkun einstakra orða í þessu sambandi, en hér er vissulega um að ræða óvenjulega leið sem ekki er fyllilega í samræmi við það sem stendur í núgildandi stjórnarskrá. Verið er að leggja upp með að farin verði önnur leið en farin hefur verið við stjórnarskrárbreytingar allan lýðveldistímann og raunar lengur. Hvort við veljum orðið hjáleið eða ekki læt ég liggja á milli hluta. Það er alla vega mjög sérstakt og sérkennilegt að mínu mati að leggja upp með bráðabirgðabreytingarákvæði sem aðeins á að eiga við á næstu missirum, eins og gert er í tillögu hv. þingmanna og ráðherra. (Gripið fram í.)

Ég velti enn fyrir mér hvað gæti hugsanlega staðið í vegi þess að einu einkenni verði bætt við þær hugmyndir sem hér eru á ferðinni. Það er hugmyndin sem stundum hefur verið kölluð þátttökuþröskuldur eða samþykkisþröskuldur. Eins og ég hef áður rakið í umræðunni eru í meginatriðum tvær leiðir til í þessu sambandi. Önnur leiðin er sú að setja skýra kröfu um að tiltekið hlutfall kjósenda taki þátt í atkvæðagreiðslu til þess að hún teljist bindandi. Hin leiðin, sem er vel þekkt líka og raunar sú sem fremur er mælt með af hálfu þeirra sem rannsakað hafa kosningahegðun á grundvelli stjórnmálafræði, er sú að gerð sé krafa um að tiltekið hlutfall segi já eða samþykki það mál sem lagt er í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá vega ekki atkvæði þeirra sem sitja heima, en gerð er krafa um að lágmarkshlutfall segi já, að lágmarksstuðningur sé við tillöguna. Þá má segja að einu gildi hvort menn segja nei eða sitja heima, menn græða ekki meira á því að sitja heima en að mæta á kjörstað og segja nei. Samþykkisþröskuldur er leið sem ég er sannfærður um að ástæða sé til að skoða í þessu samhengi. Menn geta velt fyrir sér hvort hann á að vera í samræmi við það frumvarp sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram og hefur verið til umræðu eða hvort önnur hlutföll eigi að vera þar til viðmiðunar.

Ég er þeirrar skoðunar að ef farið er út í breytingar á þessu breytingarákvæði hljóti slík leið að vera til skoðunar og hljóti að vera mikilvæg. Þeir sem leggja mikið upp úr því, eins og sumir gera og flestir væntanlega hér í þessari umræðu, að þjóðaratkvæðagreiðsla skeri úr um niðurstöðu stjórnarskrárbreytinga og þeir sem telja mikilvægt að niðurstaðan í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu endurspegli vilja kjósenda og vilja þjóðarinnar hljóta að fallast á að einhver lágmarksfjöldi þurfi að segja já til þess að breytingin taki gildi. Að vissan stuðning þurfi í samfélaginu til þess að breytingarnar nái fram að ganga, að það nægi ekki að lítill minni hluti geti í krafti hugsanlega áhugaleysis fjöldans komið í gegn stjórnarskrárbreytingu. Ég varpa þessu því enn fram hér í þessa umræðu.

Það er annað atriði, hæstv. forseti, sem ég vil koma að áður en umræðunni lýkur og ber vel í veiði að hæstv. utanríkisráðherra er hér viðstaddur og getur brugðist við og jafnvel hv. formaður utanríkismálanefndar. Það er samhengið við Evrópusambandsumsóknina því nú er alveg ljóst að Evrópusambandsaðild Íslands er óhugsandi og ekki möguleg að núverandi stjórnarskrá óbreyttri. Er ástæðan fyrir því að hér er lagt upp með sérstaka flýtimeðferð á stjórnarskrármáli, að stjórnarskrárbreytingar geti átt sér stað 2014 eða að minnsta kosti löngu fyrir lok næsta kjörtímabils, sú að menn vilji tryggja að hægt sé að koma Evrópusambandsaðild á innan þeirra tímamarka sem hér um ræðir?