141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

642. mál
[21:29]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fylgja þessari tillögu til þingsályktunar úr hlaði og játa á mig sem flutningsmaður þau glöp að hafa í fyrri ræðu minni í dag þegar ég mælti fyrir því frumvarpi sem umræðu var að ljúka um, frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá, staðið í þeirri meiningu að ég væri að mæla fyrir báðum málum í einu og getur þessi framsöguræða því verið afskaplega stutt. Ég vísa til þess sem ég sagði fyrr í dag og hef litlu við það að bæta. Um er að ræða tillögu til þingsályktunar sem fylgir frumvarpinu sem 1. umr. fór fram um áðan. Hún gerir ráð fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar þannig að tryggt sé að starfið sem hefur verið unnið í stjórnarskrárumbótum á þessu kjörtímabili glatist ekki við lok þess heldur verði hægt að vinna áfram með efnið á næsta þingi. Búið verði þannig um að sérstök nefnd verði kjörin af Alþingi sem fær það hlutverk að vinna málið áfram í sumar og fella það í þann búning sem hún telur eðlilegast. Nefndin færir málið svo í hendur nýs þings á hausti komanda með það að markmiði að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar geti verið lokið fyrir 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.