141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

642. mál
[21:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér kemur annar tvílembingur þessarar nýju samsteypu Samfylkingar, litlu Samfylkingar og Vinstri grænna, formanna þeirra sem kynntu til sögunnar fyrr í kvöld breytingar á samstöðuákvæðinu í stjórnarskránni. Samstöðuákvæðinu sem ég kalla svo og er vissulega breytingarákvæði en er nokkuð stíft í íslenskum rétti þótt vissulega séu til stífari ákvæði á Norðurlöndunum, eins og til að mynda í Danmörku þar sem slíkt breytingarákvæði eða breytingar á stjórnarskrá þurfa að fara í gegnum tvennar kosningar og síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en breytingin á stjórnarskránni er samþykkt. Hún er auðvitað gerð svona stíf þar og hér og víðar til að tryggja að menn reyni af öllum mætti að ná sem breiðastri samstöðu um breytingar á grundvallarlöggjöf hverrar þjóðar, löggjafarsáttmálanum. Því er það að mati okkar framsóknarmanna illráðið að fara fram með breytinguna sem var kynnt af þessu þríeyki.

Hér er til þingsályktunar tillaga sem hljóðar þannig með miklum fagurgalatexta að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins og tillagan hljómar í sjálfu sér ljómandi vel. Ég hef heyrt frá mörgum þingmönnum sem eru talsmenn þessa nýja frumvarps að stjórnskipunarrétti, og reyndar nokkrum þingmönnum sem hafa einfaldlega fjallað um það í löggjöfinni, að þeir leggja mikið upp úr því að textinn sé fagur. Vissulega þurfum við að passa upp á að nýta alla möguleika íslenskunnar til að fagur texti sé í löggjöf en þegar menn fara að breyta texta sem er útpældur af til þess bærum sérfræðingum á svipstundu á endamörkum mála vegna þess að þeim finnst það hljóma betur, án þess að kafa kannað til hlítar hvað það þýðir, geta menn lent í pyttum.

Ég held til að mynda að hausinn á þessari þingsályktunartillögu geti lent í þeim pytti. Hér er fagurgali um að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins. Í lokasetningu greinargerðarinnar kemur fram, með leyfi forseta, að:

„Hljóti það frumvarp brautargengi verður unnt að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar með viðeigandi hætti í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu á 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014.“

Ég er ekki viss um að það muni ganga vel fyrir sig ef menn ætla sér að lenda í tímahraki að nýju og stefna málinu aftur með það hangandi yfir sér að einfaldur meiri hluti á þingi geti breytt stjórnarskránni. Ég held að það sé óskynsamlegt og rjúfi akkúrat þá hugmynd um samstöðuákvæðið sem þeir sem settu stjórnarskrána á sínum tíma hafa væntanlega haft í huga, að ákvæðið væri til að tryggja að menn reyndu af fremsta megni að ná sem breiðastri samstöðu um málið. Það ættum við auðvitað að vera að gera hér.

Í forsendum þingsályktunartillögunnar á að liggja til grundvallar vinna þessarar fimm manna nefndar. Tillögur stjórnlagaráðs eiga að liggja til grundvallar og miða að því að útfæra nánar frumvarpið, nýja stjórnarskrá sem liggur nú fyrir þinginu. Þá væru jafnframt hafðar til hliðsjónar þær breytingartillögur sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram.

Ég hef heyrt tvo nefndarmenn hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm Lúðvík Geirsson og Álfheiði Ingadóttur, halda því fram í ræðustól að engar tillögur hafi komið frá öðrum en þeim sem sitja í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, engar frá stjórnarandstöðunni. Ég vil rifja upp, frú forseti, að í umsögn atvinnuveganefndar var ég með fyrirvara við það álit og skilaði inn texta — við höfðum þrjár greinar til umfjöllunar — þar sem ég gerði þrjár breytingartillögur og skilaði í umsögn til nefndarinnar. Eins var með mjög margar aðrar nefndir. Ég skil þetta ekki. Hér er hugmyndafræðin sú að einungis eigi að taka tillögur frá meiri hlutanum. Næsta þing, sem enginn veit hvernig verður samansett, á einungis að hafa tillögur meiri hlutans til hliðsjónar. Það á ekki að taka tillögur sem hafa verið til umfjöllunar hjá öllum nefndum þingsins og væntanlega síðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni sem er afar sérkennilegt.

Það er heldur ekki minnst á þá vinnu sem hefur farið fram á síðasta áratug eða tveimur við breytingar til að mynda á náttúruauðlindaákvæðinu. Við framsóknarmenn teljum reyndar að hægt sé að setjast yfir það á þeim dögum sem eftir eru og finna samstöðu í þinginu, ná breiðri sátt um ákvæðið. Við settum þess vegna fram tillögu í dag sem miðar að því að reyna að sætta bæði þá sem eru til vinstri og hægri og fá þá til að reyna að klára ákvæðið í þessari lotu. Ég held að það yrði áferðarfallegra að gera það í stað þess að fresta málinu sisvona til næsta kjörtímabils.

Frú forseti. Ég held að menn stefni í blindgötu með málið. Það hefur komið til umræðu hvaða gildi þingsályktun hefði sem er þingsályktun til næsta þings. Við þekkjum auðvitað þingsályktanir sem þing samþykkja og senda til framkvæmdarvaldsins og það er fullkomlega eðlilegt að þær haldi áfram á næsta kjörtímabili eða þarnæsta ef þær eru með tilvísun til lengri tíma. En þingsályktun sem vísar til þess að binda hendur næsta þings rétt fyrir kosningar, alveg óháð því hvernig þær kosningar fara og hvaða fólk sest á þing, hlýtur að vera umdeilanleg sem og hvaða gildi slík þingsályktun hefur.

Það kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni rétt áðan að ef samsetning þingsins verður með allt öðrum hætti gæti nýja þingið í sjálfu sér sett fram nýja þingsályktun og fellt þessa úr gildi í heild sinni án þess að hugsa sig mikið meira um. Það væri alveg hægt af því að ekki hefur verið gerð ein einasta tilraun til að reyna að ná samstöðu. Sú hugmynd kom fram í gærkvöldi að fara þessa leið og við erum að tala um hana einum sólarhring síðar og án þess að tilraun hafi verið gerð til að reyna að ná breiðari samstöðu.

Frú forseti. Ég held því miður að verið sé að fara með málið í blindgötu. Hvort þetta er hlutur af einhverju stærra sjónarspili veit ég ekki, ég vona ekki því að stjórnarskráin á betra skilið. Það er búið að vinna heilmikið í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili. Sumt hefur gengið vel, náðst hefur að skapa nokkuð breiða samstöðu um sumt en í öðrum tilvikum hefur það mistekist hrapallega. Málið í heild sinni er komið í öngstræti eins og við þekkjum. Það er ekki meiri hluti innan stjórnarflokkanna til að fara fram með það í þinginu, enda óskynsamlegt að fara fram í miklu ósætti við stjórnarandstöðuna með lítinn meiri hluta af sömu ástæðu og ég nefndi um þingsályktunartillöguna, að næsta þing eða kosningarnar fari að snúast um hvort menn ætli að fjalla um stjórnarskrána og hún verði eitthvert pólitískt bitbein. Hún á ekki að vera það.

Við eigum að geta hafið okkur yfir það í málinu þegar við fjöllum um stjórnarskrána, geta sest niður, reynt að ná sem víðtækastri sátt um hverja einustu grein og breyta þeim sem við höfum síðan náð sátt um. Þess vegna getur hugmynd um fimm manna nefnd sérfræðinga eða þingmanna sem færu í slíka vinnu vel verið ásættanleg. Ég bendi líka á tillögu okkar framsóknarmanna um að formenn flokkanna gefi út yfirlýsingu, þess vegna sameiginlega, og muni síðan beita sér í sínum flokkum fyrir því. Það er ekki 100% heldur því að auðvitað geta komið fram ný framboð sem við þekkjum ekki í dag og náð umtalsverðu fylgi og væru algjörlega á móti því á næsta þingi.

Frú forseti. Ég held að þessi aðferð sé dæmd til að mistakast. Hún er blindgata og mun ekki leiða okkur áfram af neinni skynsemi í málinu.