141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

vatnalög og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

634. mál
[22:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Málið er nú tiltölulega skýrt, það er tiltölulega einfalt. Það snýst um þessa lagasamræmingu sem öll rök standa til. Ég get ekki haldið því fram að það sé knýjandi nauðsyn og himinn og jörð farist á einhverjum næstu vikum eða mánuðum, en þó er það þannig að augljóslega er betra að samræmið komist á sem fyrst.

Þar má til dæmis nefna rannsóknarleyfin, tengslin yfir í raforkulögin, þetta sem ég nefndi með núverandi stöðu hvað varðar sjávarfallavirkjanir og möguleg rannsóknarleyfi í því sambandi, að það er svona nokkuð ankannaleg staða að það sé bundið við svæði innan netlaga og ekki heimilt að fara þar út fyrir. Ég skal vel viðurkenna að æskilegra hefði verið að málið hefði komist fram fyrr en það tók þennan tíma að vinna úr tillögum nefndarinnar og var satt best að segja ekki byrjað mikið á því fyrr en í haust. Hún skilar í fyrravor og síðan er málið kynnt snemmsumars í ríkisstjórn og starfið hófst svo við að skoða þetta í haust eða snemma vetrar.

Í raun er frumvarpið mjög einfalt en menn vildu náttúrlega fara mjög vandlega í gegnum það að réttur umbúnaður væri á þessu hvað varðar það að samræma þetta að fullu vatnalögunum. Það eru þau sem ráða í raun og veru og þetta er samræmingarvinna til þess að lögin að öðru leyti, lög um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, eftir atvikum þá tengingin yfir í raforkulögin, séu í samræmi við þessa meginlöggjöf. Málið er tiltölulega einfalt og liggur skýrt fyrir þannig að ég er nú svo bjartsýnn já, að ég geri mér fullar vonir um að atvinnuveganefnd vinni þetta rösklega. Það væri sómi að því að ljúka meðal annars afgreiðslu þessa ágæta máls hér fyrir þinglok.