141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

vatnalög og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

634. mál
[22:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég hef ekki forsendur til að meta hvort hér er um að ræða gott mál eða slæmt og verð þess vegna að hafa alla fyrirvara á því, ætla hvorki að fordæma þetta mál né hrósa því fyrr en það hefur fengið einhverja skoðun bæði af minni hálfu og þeirra sem sitja fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd.

Ég verð að segja að mér finnst það nokkur bjartsýni hjá hæstv. ráðherra að tala um að þessu verði lokið fyrir þinglok því að segja má að þessu eins og fjöldamörgum öðrum málum sé stefnt inn í ákveðið umferðaröngþveiti sem er fyrir hendi hér í þinginu þessa síðustu daga þingsins. Ég verð að ráða það af inntaki ræðu hæstv. ráðherra að þarna séu ekki svo knýjandi forsendur að eðlilegt sé að þetta verði sett mjög framarlega í forgangsröð þeirra mála sem lokið verður fyrir þinglok. Auðvitað er það svo að jafnvel þótt þeim sem unnið hafa að framgangi mála um langt skeið eða verið með þau á sínu verksviði innan ráðuneyta finnist mál einföld og auðskilin og augljós þá kann að vera að öðrum þingmönnum finnist þörf á að taka málin til nánari skoðunar og umræðu, leita umsagna, fá álit sérfræðinga og þess háttar, sem auðvitað er ansi knappur tími til svo að við séum bara alveg raunsæ í því sambandi.

Ég tek fram að ég er eins og flestir aðrir þingmenn í þeirri stöðu að vera að sjá þetta mál í fyrsta sinn í dag þannig að ég ætla hvorki að fordæma það né lýsa yfir stuðningi við það. Ég segi sem svo að ég vænti þess að málið fái eðlilega skoðun í atvinnuveganefnd þegar málið gengur þangað.