141. löggjafarþing — 90. fundur,  6. mars 2013.

vatnalög og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

634. mál
[22:08]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu metur svo nefndin það sjálf hvaða tíma hún þarf til að fara yfir málið en ég hygg nú að það sé tiltölulega fljótgert að sannreyna það og fá þá til þess gesti o.s.frv. Hér er nákvæmlega verið að gera það sem útskýrt er og sagt er, að fara í þessa samræmingu og hún er mjög brýn.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sakna þess stundum að ekki skuli koma hér fram í máli manna meiri metnaður fyrir hönd þingsins sem stofnunar, að ljúka verkum sínum og klára það sem til heilla horfir. Ég hefði gjarnan viljað sjá það á þessu síðasta ári, eftir talsverðan barning sem má segja að þessi ágæta stofnun og við öll hér höfum gengið í gegnum, að hér væri sá andi uppi og sá vinnumórall, ef maður má nota það orð, að menn hefðu mikinn metnað til þess á síðustu tveim, þrem vikum þingsins að ljúka verkum sem hafa verið lengi í vinnslu, lengur eða skemur.

Þetta er í raun viðhengi við það sem gert var 2011. Eftir langar og miklar umræður varð niðurstaðan þar algjörlega skýr lagalega, að viðhalda anda gömlu vatnalaganna frá 1923, sem ég tel vera með merkari löggjöf fyrir nú utan hvað hún er fallega orðuð. Hér er þá verið að ljúka því verki, samræma ákvæðin í öðrum lögum og ná utan um vatnið í heild sinni með því að færa ákvæði um grunnvatn inn í vatnalögin sjálf. Þetta er því tiltölulega einfalt og skýrt og ætti að vera fljótlegt að fara yfir það hvort hér sé ekki það vel um hnútana búið að engir ágallar séu á því lagatæknilegir né annars eðlis. Ég trúi ekki að pólitískur ágreiningur sé um þetta, ég held að við séum búin með það mál. Hin neikvæða skilgreining vatnalaganna gömlu mun fá að halda sér, það er afnotarétturinn og nýtingarrétturinn sem tilheyrir jarðareigninni sem er skilgreindur og ekki er verið að hrófla við því hér.